Vinnustofur um mat úr héraði á Norðurstrandarleið

Á næstunni verða haldnar á Norðurlandi vinnustofur sem ætlað er að styrkja samstarf milli framleiðenda og þeirra sem selja veitingar og matvæli á Norðurstrandarleiðinni. Þær eru ætlaðar eigendum veitingastaða og kaffihúsa, matreiðslufólki og framleiðendum matvæla og verða haldnar á sex stöðum víðs vegar um Norðurland.

Í kynningu á vinnustofunum á vef Markaðsstofu Norðurlands segir að í verkefninu, sem hlotið hefur vinnuheitið „Taste the Arctic Coast Way“ sé lögð áhersla á að gefa gestum Norðurstrandarleiðar tækifæri til að njóta matar úr héraði (staðbundinna matvæla/local food) sem er framleiddur í hæsta gæðaflokki. Til að mæta væntingum gesta um matarupplifanir úr héraði sé það markmið verkefnisins að styrkja fyrirtæki og framleiðendur á svæðinu með áherslu á staðbundin matvæli/hráefni, ýta undir árstíðabundnar áherslur í matargerð og auka sjálfbærni.

„Norðurstrandarleið nýtur nú mikillar athygli í fjölmiðlum bæði innan lands sem utan. Hvernig er hægt að hagnýta þessa athygli með því að bjóða fram mat úr héraði og reyna þannig að hvetja ferðamenn til að sækja okkur heim? Matur úr héraði spilar lykilhlutverk þegar kemur að því að auka gæði og styðja við einstakar upplifanir á Norðurstrandarleið.“

Lögð verður áhersla á að þróa gagnlegt efni sem fyrirtæki geta hagnýtt sér í sínum rekstri. Meðal atriða sem rædd verða á vinnustofunum eru gerð bæklings um staðbundin matvæli og framleiðendur á svæðinu, tengslamyndun veitingastaða, framleiðenda og ferðaskipuleggjenda/ferðaskrifstofa og hvernig eigi að nota staðbundin og árstíðabundin hráefni.

Vinnustofurnar verða haldnar á eftirtöldum sex stöðum á Norðurstrandarleið:

  • 18. mars klukkan 15-18 á Brimslóð Atelier Guesthouse á Blönduósi.         
  • 19. mars klukkan 15-18 á Jarlsstofu á Hótel Tindastóli á Sauðárkróki.
  • 25. mars klukkan 15-18 í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.
  • 26. mars klukkan 15-18 á Rósenborg á Akureyri.
  • 7. apríl klukkan 15-18 á Ytra Lóni á Langanesi.
  • 8. apríl klukkan 15-18 í Tungulendingu á Tjörnesi.

Verkefnið er stutt af Matarauði Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Sjá nánar hér á vef Markaðsstofu Norðurlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir