Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga

Safnahús Skagfirðinga stendur fyrir vísnakeppni nú í aðdraganda Sæluviku Skagfirðinga. Fyrsta vísnakeppni Safnahússins var haldin árið 1975 að frumkvæði Magnúsar Bjarnasonar kennara og minningarsjóðs hans. Keppnin verður með sama sniði og undanfarin ár og er tvíþætt. Annars vegar eru hagyrðingar beðnir að botna fyrriparta en hins vegar yrkja vísu um ákveðið viðfangsefni. Nú á síðustu og verstu tímum eru kærkomin hverskonar heilræði og ráðleggingar. Því skal viðfangsefnið að þessu sinni vera Heilræði. Síðan skal kljást við eftirtalda fyrriparta:

  • Ef ég mínu kvæði í kross
  • kannski bráðum vendi.
  • Hugsun öll er horfin brott,
  • hausinn virkar lítið.

Síðan koma tveir fyrripartar með innrími þar sem viðfangsefnið er úrslit nýafstaðinnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Og til að gefa báðum fylkingum jafna möguleika þurfa þeir að vera tveir:

  • Ef að þjóðin ekki lætur
  • ólög bjóða sér að þola
  • Hefðum betur hörðum kostum játað,
  • höfnun setur oss í mikinn vanda.

Verðlaun eru í boði Sparisjóðs Sauðárkróks: 20.000 fyrir besta botninn og 20.000 fyrir bestu vísuna.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi, 550 Sauðárkróki fyrir föstudaginn 29. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dulnefni en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið: skjalasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni áður en vísunar fara til dómnefndar.

Fleiri fréttir