Völvuspá Feykis 2020

Eins og undanfarin ár er rýnt inn í framtíðina og reynt að sjá fyrir óorðna hluti hér í Feyki. Í mörg ár hafa spákonurnar í Spákonuhofinu á Skagaströnd rýnt í spil og rúnir en að þessu sinni gátu þær ekki orðið við beiðni blaðsins. Var þá leitað á önnur mið og eftir mikla eftirgrennslan náðist samband og samkomulag við einstakling sem vill ekki láta kalla sig spámann eða völvu heldu seiðskratta. Aðspurður um þá nafngift sagði hann að það hæfði sér best enda bruggaður seiður við þennan gjörning. Ekki vildi viðkomandi koma fram undir nafni og munum við verða við því.

Veður
Janúar verður frekar erfiður þar sem Vetur konungur mun ráða ríkjum og hætta er á að mikill snjór fylgi slæmum veðurköflum. Fólk ætti að fara varlega í umferðinni þar sem ófærð verður víða á okkar svæði.

Febrúar veður hins vegar góður og líklegt að Þorri verði í góðu skapi. Þorrablótsþyrstir Íslendingar munu ná sínum blótum og útlitið gott fyrir útivistarfólk.

Mars virðist ætla að verða góður og tíðindalítill meðan apríl ætlar að verða umhleypingasamur samkvæmt seiðskratta en meinlaus verður hann að öllum líkindum.

Maí verður kaldur framan af en batnar þegar á líður. Búast má við einu skoti áður en júní tekur við sem ekki verður sumarlegur til að byrja með. Kuldinn í byrjun júní mun að einhverju leyti ýta undir utanferðir landsmanna sem flykkjast sem aldrei fyrr til sólarlanda.

Eins og vonbrigðin verða með júní verður júlí einstaklega góður fyrir menn og skepnur. Grillarar verða í sínu besta formi og bændur kátir með heyskap. Fólk getur spókað sig á pallinum með hnausþykka sólarvörn.

Þó ekki sé það alveg augljóst þá segir seiðskrattinn grilla í vont hret í ágúst sem kemur mörgum illa, ekki síst búsmala sem enn er á fjalli. Líklega verður þetta skot um eða eftir miðjan mánuðinn en varir ekki lengi.

September og október verða einkar góðir báðir tveir og mikill sumarauki einkum norðanlands. Meinlaust veður og frekar gott og ekkert sem gefur annað til kynna en haustið verði ljúft.

Nóvember verður góður framan af en búast má við stórviðri með kulda og hríð áður en hann er allur með miklum truflunum á samgöngum og jafnvel rafmagnstruflunum. Minnast margir nýgengis fárviðris sem gerði mikinn usla á Norðurlandi öllu.

Desember verður hins vegar hæglátur og góður og fólk ætti að geta haldið upp á gleðileg jól og áramót.

Ekki er að sjá að neinar náttúruhamfarir verði á árinu sem vert er að nefna utan nokkurra skjálfta sem ýmsir vilja tengja við verðandi eldgos. „Stóru eldstöðvarnar munu halda í sér þetta árið,“ segir seiðskrattinn sem þó hikar örlítið og segir að glitti í hraunmyndir í spákúlunni.

Þingmenn Norðurlands vestra
Frá spákúlunni snéri seiðskrattinn sér að rúnunum og lagði fyrir þingmenn Norðvesturkjördæmis. „Ég sé að þingmenn okkar eru í góðum málum enda allt gott fólk sem vill gera vel. Það er þetta með háffulla glasið og hvernig við lítum á það. Hvort horfum við meira á kosti fólks eða galla, það er jú enginn gallalaus,“ segir skratti og byrjaði á Ásmundi Einari Daðasyni. 

Ásmundur Einar Daðason er reynslumikill þingmaður sem vill gera landi og þjóð gagn og tekst honum vel upp. Þrátt fyrir að andstæðingar hans reyni að sverta orðspor hans heldur hann virðingu sinni með heiðarleikann að vopni. Ásmundur reynir að forðast þau mistök sem margan fellur að viðhafa fordóma og siðleysi. Mundu að þú uppskerð eins og þú sáir.

Þú stendur á vissum tímamótum en uppskerð árangur erfiðis og hugar að næstu skrefum. Sýndu fyrirhyggju og skipuleggðu tímasetningar sem gætu haft áhrif á vinnu þína og láttu minniháttar ósigra ekki draga úr þér mátt. Sá vægir sem vitið hefur meira!

Lilja Rafney Magnúsdóttir er á skemmtilegri leið í lífinu og allt fer vel sem hún tekur sér fyrir hendur. Vegferð hennar í pólitíkinni má líkja við ákveðið ævintýri. Iðulega nýtur hún andartaksins og augun opin fyrir góðum hlutum. Þrátt fyrir gott skipulag er Lilja sveigjanleg og tilbúin að taka því óvænta enda má sjá breytingar á hennar högum á komandi ári.

Lilja mætti hafa í huga að einhver mannleg mistök gætu átt sér stað sem munu valda tímabundnum óþægindum en ekki varanlegum skaða. Vertu þolinmóð og gættu vel að baklandinu og forðastu alla meiriháttar valdabaráttu. Farðu varlega í persónulegum samskiptum og taktu ekki óþarfa áhættu.

Bergþór Ólason hefur verið á erfiðu tímabili á lífsveginum mjóa og þurft að klofa afleiðingar gjörða sinna sem ekki verða rakin hér. Tilvitnunin um að það sem ekki drepi mann styrkir viðkomandi á vel við Bergþór sem hefur þurft að líta inn á við og taka til í táknrænni óreiðu og við það þroskast mikið.

Sköpunargáfan er ríkjandi hjá Bergþór og baráttumaður er hann fram í fingurgóma. Hann ætti að leita til vel hugsandi fólks og vera þolinmóður, rækta vináttu við samborgarana og koma fram við kjósendur af einlægni. Gættu þín á óvönduðu fólki og taktu ekki óþarfa áhættu, það mun borga sig þegar upp er staðið!

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir hefur mikið á sinni könnu sem ráðherra og þingmaður en hefur höndlað það ágætlega. Eins undarlega og það hljómar getur það verið einmanalegt en Þórdís hefur mikla orku sem fleytir henni langt. Örlögin verða henni hliðholl á árinu og flest allt henni í hag sem hún framkvæmir.
Þórdís ætti að gefa viðfangsefnum sínum sinn tíma en ekki má gleyma að leggja rækt við fólkið í kringum sig.
Gefðu af þér, vertu hlýleg og veittu birtu inn í líf annarra en umfram allt vertu þú sjálf. Ekki ofkeyra þig svo þú brennir ekki upp á skömmum tíma.

 

Guðjón S. Brjánsson er tákn hins trausta og föðurlega stjórnmálamanns sem öllum vill vel. Hann er vandur að virðingu sinni sem einnig getur komið í veg fyrir skjótrar ákvarðanatöku sem hugsanlega gæti litið illa út eftir á. Þá áhættu er erfitt að taka en Guðjón er fullur bjartsýni og tilbúinn að takast á við dagsverkið.
Guðjón stendur á vissum tímamótum þar sem ýmis tækifæri bjóðast hvort sem er í pólitík eða einkalífi. Ráðlagt er að skipuleggja verkefnin og hella sér svo í þau af fullum krafti.
Sýndu frumkvæði og vertu tilbúinn að ferðast, framkvæma og læra. Skipuleggðu verkefnin og helltu þér svo í þau af fullum krafti.

Halla Signý Kristjánsdóttir hefur agaðan lífstíl að leiðarljósi er heiðarleg gagnvart atvinnu og fjármálum. Hún setur hluti fram á skýran og hnitmiðaðan hátt og leiðréttu misskilning eins fljótt og auðið er. Ákvarðanatökur vefjast ekki fyrir henni og ekki óttast Halla ný viðfangsefni þó ekki sé ljóst hvernig best sé að nálgast þau í fyrstu. Halla mætti stundum brýna hjá sér þolgæði og seiglu og klára hluti sem hefur verið byrjað á en vilja stundum sitja á hakanum. Þú finnur fyrir hægfara en öruggum framförum á flestum sviðum og persónuleg samskipti ganga vel. Þú er umlukinn ást og kærleika.

 

Sigurður Páll Jónsson getur verið afkastamikill, hugrakkur og áræðinn ef sá gállinn er á honum. Hindrunum er rutt úr vegi með ákveðnum hætti og andstæðingar eiga erfitt uppdráttar. Leiðtogahæfileikar Sigurðar eru  miklir og þeim beitt af þekkingu, innsæi og andagift. 
Sigurður mætti samt forðast óþarfa tortryggni og taugaveiklun sem oft getur leitt til órökréttra ákvarðana og óþarfa orkueyðslu.
Gefðu eðlishvötinni lausan tauminn og vertu hugrakkur og láttu ekki hindranir stöðva þig. Leitaðu inn á við og notfærðu kraftinn sem býr innra með þér til framkvæmda. Beittu þér á pólitíska sviðinu með þínu næma innsæi til að láta í ljós vilja þinn og skoðanir þjóðfélaginu til heilla.

Haraldur Benediktsson hefur lengi notið velgengni í sínum störfum er heppinn og tekur yfirleitt skynsamlega á þeim áhættum sem hann stendur frammi fyrir. Styrkur, þrautseigja og þolinmæði er hans helsti styrkur sem kemur sér vel þegar ráðist er í stór verkefni. 
Haraldur ætti að hafa augun opin fyrir farsælum tækifærum á árinu en jafnframt að passa sig á öðrum sem gætu skapað óþarfa áhættu og því þarf að sýna fyrirhyggju. Annað gæti orðið dýkeypt. 
Gættu þín á græðgi, öfund, rógburði, óhófi og óreiðu, bæði í eigin ranni eða hjá þeim sem þú átt í samskiptum við. Forðastu mútur og vafasamar gjafir!

 

Þjóðarhagur
Þrátt fyrir bölmóð á samfélagsmiðlum standa Íslendingar með báða fætur á jörðinni og þjóðin nýtur trúnaðartrausts heimsins. Vel gengur í uppeldi barna okar þó hægt sé að finna ýmsar brotalamir á öllum sviðum. Dvínandi lesskilningur barna gæti verið vísbending um ákveðnar breytingar sem munu eiga sér stað í framtíðinni. Gamli tíminn, með strangar reglur málfræðinnar og orðaforða þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur, er á undanhaldi og nýr tími með auðveldari orð og styttri texta tekur við og allir sáttir sem það lifa.

Íslendingar ættu að rækta jákvæða hugsun en of oft er púkinn á fjósbitanum nærður á neikvæðni og illkvittni, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Vertu börnum þessa lands góð fyrirmynd og skrifaðu aldrei neitt á netið sem þú getur ekki staðið við eða sagt andspænis viðmælandanum.

Enn eitt hneykslismálið kemur upp hjá stóru fyrirtæki og vilja menn tengja það Sjálfstæðisflokknum þó það sé í raun ansi langsótt. Stjórnendur sýna gamalkunna takta og mæta örlögum sínum af æðruleysi og fullkominni lítilsvirðingu viðsannleikann.

Hagur landans verður góður á komandi ári og alltaf eru fleiri og fleiri sem hafa það betra. En gleymum ekki að það er fólk á meðal okkar sem hefur það skítt og þeim þarf að rétta hjálparhönd. Þurfandi fólki fækkar ekki á Íslandi á árinu og megum við ekki bregðast þeim.

Uppskera til fyrirmyndar og aflabrestur enginn líkt og fyrra ár. Útflutningur blómstrar og verðbólgan lág. Ferðamenn halda áfram að heimsækja landið og verða sem fyrr ein af undirstöðum hagsældar landsins.

Formenn flokkanna
Mikið hefur verið rætt um einhverjir efast um hvort allir formenn stjórnarflokkanna sitji út kjörtímabilið. Seiðskratti okkar segir breytingar verða en ekki eins miklar og sumir hafa spáð og aðrir vonist til.

Mikið mæðir á Katrínu Jakobsdóttur sem heldur ríkisstjórninni saman og tekst iðulega að sætta ólík sjónarmið flokkanna sem stjórnina myndar. Margir hafa bent á að hún þurfi ekki einungis að eiga við andstæðinga heldur sína eigin flokksmenn. Það sýndi útganga Andrésar Inga Jónssonar fyrir stuttu og má búast við því að kollegi hans Rósa Björk Brynjólfsdóttir geri hið sama. Þrátt fyrir mikla gagnrýni og andstöðu úr eigin flokki mun Katrín halda um stjórnartaumana áfram og það með sóma enda er enginn vegur grýttur alla leið.

Bjarni Benediktsson hefur líkt og Katrín mætt óvild úr eigin röðum og þá sérstaklega eldri Sjálfstæðismanna. Þar hafa þungavigtarmenn verið fremstir í flokki eins og Davíð Oddsson og Styrmir Gunnarsson svo einhverjir séu nefndir. Seiðskrattinn er dulur á svip er hann tjáir blaðamanni að líklega stígi hann til hliðar úr formannsstólnum. „Það mætti segja að hann stígi hliðar saman hliðar þar sem hann fer langt frá stjórnmálunum og tekur sér langþrátt frí. Hann er búinn að fá nóg!“ 
Við keflinu tekur kona, ekki þá nein af þeim sem nú sitja í ríkisstjórn.

Hart verður sótt að Sigurði Inga Jóhannssyni að fara að fordæmi Bjarna og hleypa konu í formannsstólinn hjá Framsóknarflokknum. Þar skín stjarna Lilju Alfreðsdóttur skært en óvíst er að þessi umskipti eigi sér stað á árinu 2020. „En þetta mun gerast!“ segir seiðskratti ákveðinn. „Örlögin eru þegar farin að undirbúa þessa breytingu.“

Fyrst farið er að spá í hverjir munu væntanlega hætta er freistandi að spyrja um örlög sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sem margir hafa bent á að sé vanhæfur vegna tengsla sinna við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja sem nú sætir rannsókn á frægu mútumáli í Namibíu. „Nei, hann mun ekki segja af sér. Hann er eins og kletturinn í hafinu sem brimið brýtur á. Ekki verður hægt að bendla hann við hina meintu spillingu sem verið er að rannsaka og ekki eru íslenskir stjórnmálamenn vanir að segja af sér þó óþægileg mál komi upp og verði þeim og þeirra flokka til trafala. Frekar er aldan stigin þangað til óveðrinu slotar.“

Íþróttir
Íslendingar halda áfram að gera það gott í íþróttum en því miður kemst karlalandsliðið í fótbolta ekki á Evrópumótið eins og stefnt var að þó að litlu megi muna. Annar verður uppi á teningnum hjá stelpunum sem fara á EM 2021.

Kvennalið Tindastóls í körfunni stendur sig einkar vel og gerir góða atlögu að deild hinna bestu. Það dugar þó ekki til að færa sig upp um deild að þessu sinni en það er í kortunum. Á næstu árum mega aðdáendur Tindastóls vænta þess að eiga tvö lið í efstu deild.

Karlalið Tindastóls heldur áfram að vera í toppbaráttu Dominos deildar í körfubolta. Þótt þeir hafi hampað bikarmeistatitlinum fyrir fáum misserum þá, því miður, ná þeir ekki að endurheimta þann titil þrátt fyrir að ná að klára Þórsara í átta liða úrslitunum í janúar.

Betur mun ganga í deildinni þrátt fyrir að ná ekki að verða deildarmeistarar þessa tímabils því seiðskrattinn pírir augun og segir með bros á vör: „Mér sýnist að þeir komist í úrslitaleikinn og það kæmi mér ekki á óvart að sigurinn verði þeirra.“

Þá höfum við það. Þegar allt er á botninn hvolft segir seiðskratti að árið 2020 verði að megninu til gott og hagsælt en vill beina því til lesenda Feykis að hver sé sinnar gæfu smiður.

„Góð er ára landsins og hvet ég alla til að finna kraftinn sem í henni býr og nota sér og sinna til heilla,“ segir seiðskratti sem í lokin vill óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á ári komandi.

Áður birst í 48. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir