Vonar að Eden Hazard komi aftur til baka :: Liðið mitt Arnór Guðjónsson

Arnór Guðjónsson í Chelsea-treyjunni og bræður hans, Björn Axel lengst til vinstri og Leifur í miðjunni. Ekki fylgir sögunni hvort hundurinn Bonnie hafi átt eitthvert uppáhaldslið. Aðsend mynd.
Arnór Guðjónsson í Chelsea-treyjunni og bræður hans, Björn Axel lengst til vinstri og Leifur í miðjunni. Ekki fylgir sögunni hvort hundurinn Bonnie hafi átt eitthvert uppáhaldslið. Aðsend mynd.

Arnór Guðjónsson er Norðlendingum að góðu kunnur á fótboltavellinum en hann hefur í mörg ár leikið sitthvoru megin Þverárfjalls, eins og stundum er sagt. Síðustu tvö tímabil lék hann með liði Tindastóls en Kormákur/Hvöt naut krafta hans þar áður en samkvæmt skýrslum KSÍ kom hann á Krókinn frá SR árið 2016. Nú hefur Arnór söðlað um á ný og nýbúinn að skrifa undir hjá Kormáki Hvöt og tekur því slaginn með Húnvetningum í 3. deildinni í sumar.

Arnór er nýfluttur á Blönduós þar sem hann byrjaði nú í nóvember sem innheimtufulltrúi hjá Sýslumanninum og með því stundar hann nám við Háskólann á Akureyri þar sem stefnan er að útskrifast sem viðskiptafræðingur næsta vor. „Ég bý á Blönduósi með kærustu, litla stráknum hennar og svo erum við nýkomin með lítinn miniature pinscher hvolp,“ segir hann aðspurður um heimilishagi. Arnór svarar hér spurningum í Liðinu mínu.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Chelsea, ég byrjaði að halda mér Chelsea þegar ég var lítill strákur, þegar frænka mín gaf mér trefil af fótboltaliðinu sem hún hélt með og var það Chelsea trefill. Hef haldið með þeim síðan þá.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Miðað við gengið í upphafi tímabils þá er ég bara vongóður um titilbáráttu og jafnvel að við náum að verja meistaradeildartitilinn.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Já, mjög. Thomas Tuchel hefur komið vel inn í þetta og liðið spilar ágætis bolta og fær fá mörk á sig. Kannski ekki alltaf skemmtilegustu leikirnir en vill maður ekki bara sjá liðið sitt vinna hvort sem er.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já, lendi líklega í því oftar en flestir. Við erum ekkert svo margir stuðingsmenn Chelsea í kringum mig og flestir sem styðja ekki liðið þola það ekki þannig maður þarf oft að verja liðið.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Didier Drogba hann hafði allt sem frammherji þarf að hafa og pakkaði flestum varnarmönnum saman. Svo koma nokkrir aðrir fast á eftir honum eins og John Terry, Frank Lampard og svo auðvitað Eden Hazard sem er svo vonandi að koma aftur til baka.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, fór á milli jóla og nýárs árið 2013 og sá Chelsea vinna Liverpool 2-1 þar sem einmitt Hazard skoraði geggjað mark og Samuel Etoo skoraði einnig, það var mikil upplifun og gaman að fara loksins á völlinn. Manni hefur síðan þá langað að fara aftur og það hlýtur að styttast í það.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Á nokkrar treyjur sem maður hefur safnað í gegnum árin og ennþá gömlu treflana frá því ég byrjaði að halda með liðinu.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það gengur frekar illa en við erum fjórir bræðurnir og halda tveir með Man. United og einn með Arsenal. Ég mun samt klárlega reyna fá fleiri á Chelsea vagninn þegar það kemur að því í framtíðinni.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, og stefni ekki á það, hugsa ég myndi frekar hætta bara að halda með liði og fara frekar að halda upp á leikmenn.

Uppáhalds málsháttur? Margur er knár þó hann sé smár.

Einhver góð saga úr boltanum? -Fyrir sumarið 2018, þegar ég spilaði með Tindastól, fórum við í æfingarferð til Spánar sem er nú ekkert merkilegt nema hvað að ég og tveir aðrir fórum í agabann eftir ferðina fyrir fyrsta leik í bikar. Ég ákvað hins vegar að fara til Húsavíkur að horfa á leikinn með öðrum, sem var einmitt líka í agabanni, það fór ekki betur en að ég var tekinn af löggunni á leiðinni í leikinn og svo töpuðum við einmitt leiknum eftirminnilega 7-1. Það var ekki ferð til fjár í það skiptið á Húsavík.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Símahrekkir eru alltaf klassískir og gerðum við góðan símahrekk á bekkjarbróður okkar sem heitir Sveinn og var með einkanúmerið Svenni. Þá hringdum við í hann og vorum að segjast heita það sama og reyna kaupa einkanúmerið af honum, hann gaf sig aldrei þrátt fyrir margar tilraunir en hann fattaði svo á endaum að þetta værum við bekkjarbræður hans að hringja.

Spurning frá Alex Má: -Kann Tommi Tuchel ekki að nota Lukaku eða er þetta sprungin blaðra?

Svar: Tommi er að læra inn á Lukaku, ennþá hægt að blása í blöðruna áður en hún springur.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Guðmund Kristján Sigurbjörnsson, harðasta stuðningsmann West Ham á Sauðárkróki.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Nær West Ham 4. sætinu eða verður þetta vonbrigðatímabil enn eina ferðina?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir