Ánægðir Skagfirðingar eftir frábæran árangur á HM

„Ótrúlegu ævintýri í Berlín lokið, silfur í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum og brons í fjórgangi. Skildi við þessa einstöku hryssu hana Koltinnu frá Varmalæk sem ætlar að halda á vit ævintýranna í útlandinu,“ skrifar Ásdís Ósk við myndina á Facebooksíðu sinni.
„Ótrúlegu ævintýri í Berlín lokið, silfur í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum og brons í fjórgangi. Skildi við þessa einstöku hryssu hana Koltinnu frá Varmalæk sem ætlar að halda á vit ævintýranna í útlandinu,“ skrifar Ásdís Ósk við myndina á Facebooksíðu sinni.

Heimsmeistaramóti íslenska hestsins lauk sl. sunnudag í Berlín en þar hlutu Íslendingar sex gullverðlaun af níu í flokki fullorðinna, eitt gull í flokki ungmenna og fjögur af sex kynbótahrossum sem Íslendingar sendu á mótið urðu efst í sínum flokki.  „Þreyttu en líður vel,“ sagði Jóhann R. Skúlason eftir mikla keyrslu nóttina eftir mótið og Ásdís Ósk Elvarsdóttir sagði það algjörlega geggjað að standa á palli á HM íslenska hestsins.

Af keppendum af Norðurlandi vestra er það að segja að Jóhann Rúnar Skúlason varð þrefaldur heimsmeistari á hesti sínum Finnboga frá Minni-Reykjum en þeir sigruðu í tölti, fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum. Jóhann fékk einnig verðlaun fyrir bestu reiðmennskuna á mótinu.

Ásdís Ósk Elvarsdóttir, frá Syðra-Skörðugili, og Koltinna frá Varmalæk urðu í öðru sæti í tölti í flokki ungmenna og í þriðja til fimmta sæti í fjórgangi ungmenna, Ásdís Ósk og Koltinna urðu einnig í öðru sæti í samanlögðum árangri í fjórgangsgreinum. 
Bergþór Eggertsson (frá Bjargshóli í Miðfirði) og Besti frá Upphafi unnu til bronsverðlauna í gæðingaskeiði. 

Í kynbótasýningunni varð Eyrún Ýr frá Hásæti efst í flokki sex vetra hryssna en knapi var nafna hennar, Eyrún Ýr Pálsdóttir frá Flugumýri. Spaði frá Barkarstöðum var efstur í flokki sex vetra hesta, knapi var Helga Una Björnsdóttir frá Syðri-Reykjum í Miðfirði. Hamur frá Hólabaki varð annar í flokki fimm vetra stóðhesta, knapi á Hami var Tryggvi Björnsson frá Blönduósi.

Íslenska liðið vann til flestra verðlauna á mótinu og hlaut að launum liðabikarinn. Á vefsíðu Landssambands hestamanna segir þetta besta árangur íslenska landsliðsins í hestaíþróttum frá 2007 og ef öll gull eru talin í flokki ungmenna og kynbótahrossa hefur árangurinn aldrei verið betri því liðið fór heim með ellefu gullverðlaun alls.

Þrefaldir heimsmeistarar, Jóhann Rúnar Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum. Mynd: Lhhestar.Jóhann R. Skúlason 

„Þreyttu en líður vel, var að keyra í alla nótt og kom heim klukkan fimm í morgun,“ sagði Jóhann R. Skúlason þegar Feykir náði tali af honum í hádeginu sl. mánudag. Það er ekki bara heimsmeistarakeppni sem Jói þarf að mæta á því fyrsti skóladagur hjá syninum var þá um morguninn og mæting klukkan átta. Því var ekki um neinn svefn að ræða þann morguninn.  

Jóhann og Finnbogi frá Minni-Reykjum komu, sáu og sigruðu í fjórgangsgreinum og ekki hægt að vinna meira á þeim hesti. Jóhann hefur verið sigursæll á HM í gegnum tíðina, unnið í töltinu sjö sinnum, 5. skiptið í samanlögðum fjórgangsgreinum en nú í fyrsta skiptið sem hann vinnur fjórgang.

Hver er galdurinn?
„Það er fyrst og fremst að finna hest sem virkar í verkefnið. Bæði hvað gangtegundir varðar og með hausinn í lagi. Svo þarf að standa rétt að uppbyggingu hestsins, gefa honum þann tíma sem þarf í þjálfun og annað hitt að hann þarf að vera veraldarvanur líka. Það er mikill hávaði og læti þegar komið er inn á heimsmeistaramót og hesturinn þarf að hafa kynnast og venjast þessu öllu svo að þetta gangi upp,“ segir Jóhann. Þetta er annað heimsmeistaramót Finnboga og býr hann vel að því að sögn Jóhanns. Hesturinn er níu vetra en hann var sex vetra þegar Jói byrjaði að keppa á honum þannig að nú stendur fjórða keppnisbilið yfir.

Þeir félagar hafa orðið danskir meistarar í tölti fjórum sinnum og Norðurlandameistarar í tölti svo afrekin eru góð hjá hestinum þrátt fyrir ungan aldur.

Finnbogi kemur frá Agli Þórarinssyni, frá Minni-Reykjum í Fljótum, sem hringdi í Jóhann sumarið 2010 og sagðist hafa eignast fallegt folald sem Jóhann þyrfti að eignast. Jói tók vel í það, bað Egil að taka það frá fyrir sig, og boðaði komu sína í Laufskálarétt um haustið. Þar skoðaði Jói gripinn og gengið var frá kaupunum á staðnum. Til Danmerkur fór Finnbogi 4. vetra og segir Jóhann að um leið og hann fór að ríða honum og kynnast á 5. vetur sá hann að hesturinn var mjög efnilegur í verkefnið. „Ég sá margt við hann, fallegur, mjúkur og hafði marga eiginleika,“ segir Jóhann ánægður með félaga sinn.

 

Ásdís Ósk Elvarsdóttir og Koltinna frá Varmalæk náðu glæsilegum árangri á HM í Berlín. Mynd: Lhhestar.

Ásdís Ósk Elvarsdóttir

Ásdís Ósk Elvarsdóttir, frá Syðra-Skörðugili, er að stíga sín fyrstu spor í Landsliði Ísland í hestaíþróttum en hún á mikilli velgengni að fagna á keppnisvöllum hérlendis frá blautu barnsbeini.

Ásdís Ósk er 21 árs gömul, keppir í flokki ungmenna og á HM sat hún Koltinnu frá Varmalæk. Koltinna er í helmingseigu ræktandans Björns Sveinssonar frá Varmalæk og Ásdísar Óskar og hafa þær náð afbragðs góðum árangri saman í keppnum hérlendis og nú í Berlín.

 „Það er ólýsanleg tilfinning, algjörlega geggjað,“ sagði Ásdís Ósk spurð um þá tilfinning að standa á palli á HM íslenska hestsins. „Stefnan var alltaf sett á pallinn og innst inni vissi ég alveg að ég ætti möguleika á því ef allt myndi ganga upp,“ segir Ásdís en Koltinnu hefur hún þjálfað í þrjú ár. „Hún er alveg einstök, með geðslag upp á tíu, alltaf tilbúin að leggja sig alla fram í öll verkefni, gangtegundir frábærar og auðvelt að gera þær enn betri því hún er alltaf eins og hugur manns.“

Hvað tekur nú við?
„Núna kem ég heim í smá tíma og fer svo suður og held áfram að vinna á Margrétarhofi/ Króki hjá Aðalheiði og Reyni.“

Áður birst í 30. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir