Glæsileg sýning í nýjum búningnum

Flottir hestakrakkar á Hvammstanga í glæsilegum búningum. Mynd: Irina Kamp.
Flottir hestakrakkar á Hvammstanga í glæsilegum búningum. Mynd: Irina Kamp.

Síðustu þrjú ár hafa hestafimleikakrakkar á Hvammstanga verið á ferðinni og safnað dósum og flöskum en upphafslegt markmið var að stofna sjóð til að  gera eitthvað skemmtilegt saman. Í ár var hins vegar brugðið út af þeim áætlunum og ákveðið að safna fyrir nýjum búningum. "Og það tókst!" segir Irina Kamp hjá hestamannafélaginu Þyt og þakkar fólki á Hvammstanga fyrir að taka svo vel á móti krökkunum að draumurinn þeirra rættist.

„Búningurinn var sérhannaður fyrir hópinn þar sem íslenskir litir og þemað eldur og ís átti að koma fram. Allir biðu spenntir eftir því að sjá útkomuna. Allir 24 krakkarnir voru rosalega glaðir að fá tækifæri til þess að vera í þeim á haustsýningu þeirra og vildu nota tækifæra til að þakka fyrir sig. Ákveðið var að bjóða öllum sem að styrktu þau í íþróttahúsið til að horfa á frumsýningu búninganna og brot af því sem krakkarnir voru að æfa í haust, segir Irina. Áhorfendur fengu að sjá glansandi búninga í tískusýningarútgáfu þar sem yngstu byrjendurnir voru á kubbahesti, fimleikadans frá þeim lengra komnu og að sjálfsögðu fjör og stökk frá öllum saman. „Tónlistin var skemmtileg blanda af íslenskum lögum og þekktum hestafimleika lögum sem strikuðu vel undir atriðin. En rjómatoppurinn kom svo í lokin sem töfraði áhorfendur í annan heim. Ljósið var slökkt og lýst bara með sérstöku bláu ljósi sem endurkastaðist frá hvíta lit búninganna eins og endurskinsmerki. Allir voru sammála um að sýningin hafði tekist mjög vel og hlakka krakkarnir strax til að halda næstu sýningu í flottum búningum,“ segir Irina ánægð með framtakið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir