Að pissa eða ekki pissa | Leiðari 16. tölublaðs Feykis

Nýverið var hætt að gefa út Sæluvikudagskrá. Það er kannski eitt af því sem sumir sakna. Hér eru nokkrar seinni tíma kápumyndir dagskrárinnar.
Nýverið var hætt að gefa út Sæluvikudagskrá. Það er kannski eitt af því sem sumir sakna. Hér eru nokkrar seinni tíma kápumyndir dagskrárinnar.

Nú er Sæluvika í Skagafirði. „Sæluvika Skagfirðinga er lista- og menningarhátíð sem haldin er árlega í Skagafirði. Metnaðarfull dagskrá Sæluviku stendur yfir í viku og hefst hún formlega síðasta sunnudag í apríl ár hvert,“ segir í kynningu á heimasíðu Sæluvikunnar.

Einhvern veginn er það þannig að mig grunar að þegar undirritaður var að alast upp í eitís á síðustu öld hafi verið meiri spenningur fyrir Sæluvikunni okkar góðu. Sem er auðvitað ekkert skrítið. Á þessum tíma var til dæmis ekki hægt að horfa á bíómyndir öðruvísi en að fara í bíó.

Það má segja að hjá okkur krökkunum var mesta eftirvæntingin að fá Sæluvikudagskrána í hús og fletta upp á bíósýningunum hjá Munda og Boggu. Ef ég man rétt var bíó alla daga Sæluvikunnar og jafnvel þrjár sýningar á dag. Einhverjir tóku þetta meira og minna allt með trompi og voru frekar framlágir í skólanum þessa viku en höfðu frá ýmsu að segja.

Í bíó á þessum tímum voru mögulega myndir á borð við Cannonball Run, Grease og Superman. Ekki var óvanalegt að Mundi hitaði upp með einum RoadRunner áður en stjörnunar birtust á tjaldinu. Klassískar Sæluvikumyndir voru Áfram-myndirnar (Carry On) og Trinity-myndirnar með hinum óborganlegu Terence Hill og Bud Spencer. Risinn Bud rotaði menn miskunnarlaust með einu góðu höggi ofan á höfuðið – brosti aldrei og var frekar þreyttur á þessum aumingjum sem voru með vesen. Þessar myndir hafa pottþétt ekki elst eins vel og Chaplin myndirnar sem Mundi sýndi í Sæluviku – enda kvikmyndaklassík einstaks listamanns.

Ein bíóheimsókn fyrir eitís er mér mjög minnisstæð en þá var verið að sýna Lukkubílinn sem var nú ósköp venjulegur hvítur Volkswagen, númer 53, en eigandinn tók þátt í einskonar rallýkeppnum. Bíllinn var óvenjulegur að því leyti að hann bjó yfir eigin vilja... já, jafnvel sigurvilja. Í lokaatriði myndarinnar var keppnin orðin æsispennandi, mikil eftirvænting og spenna í bíósalnum, poppið búið og Lukkubíllinn næstum kominn í tvennt eða eitthvað. Þá hnippti ég í bróðir minn og sagði honum að ég þyrfti að pissa – núna! – og hann yrði að koma með mér. Mig minnir að hann hafi tilkynnt heima að hann færi ekki aftur með mig í bíó.

Það er hins vegar margt annað í boði en bíósýningar í Sæluviku og dagskráin væri ekki upp á marga fiska ef ekki væri fyrir öflugt menningarstarf innan fjarðar – fólk sem hefur málað, myndað, sungið og leikið og sýnir nú afrakstur vinnu sinnar. Það er mikilvægt að við tökum þátt í menningunni með því að mæta á viðburðina sem boðið er upp á. Það er bæði göfugt og gaman – það er alltaf hægt að pissa síðar...

Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir