Hafsteinsstaðir sigruðu símakosningu ræktunarbúa á Landsmóti hestamanna

Glæsileg hross úr ræktun Hafsteinsstaðahjóna, ásamt knöpum./Henk Peterse
Glæsileg hross úr ræktun Hafsteinsstaðahjóna, ásamt knöpum./Henk Peterse

Á nýliðnu Landsmóti hestamanna á Hólum var haldin sýning ræktunarbúa en alls tóku tíu bú þátt. Áhorfendur völdu sitt uppáhaldsbú í símakosningu eftir sýningu og urðu Hafsteinsstaðir fyrir valinu þetta árið.

Samkvæmt frétt á www.landsmot.is var hestakostur þeirra ræktunarbúa sem tóku þátt, hver öðrum glæsilegri og þar segir ennfremur að áhorfendabrekkan hafi verið eitt ánægjubros með aðdáum í augum þegar hver gæðingurinn á fætur öðrum fór um brautina.  
Áhorfendur fengu að lokum að velja sitt uppáhaldsbú með símakosningu og það var Hafsteinsstaðir sem varð hlutskarpast og er það í 4. sinn sem búið sigrar áhorfendakosninguna á landsmóti.
Sigurbúið mætti aftur á braut á laugardagskvöldið, ásamt hrossaræktarbúi síðasta árs, Gangmyllunni (Ketilstaðir/Syðri-Gegnishólar) og „tóku gæðingana til kostanna sem aldrei fyrr“ líkt og það er orðað á Landsmótsvefnum.

 Skapti Steinbjörnsson og Hildur Claessen reka ræktunarbúið á Hafsteinsstöðum en Skapti segir í samtali við Feyki að þessi heiður, að vera valið besta búið sé mjög gott fyrir búið því að þetta sýni stöðu búsins meðal hrossaræktenda, það hafi verið mörg góð bú sem tóku þátt að þessu sinni. „þetta er góð auglýsing og sýnir hvers konar hestakost við höfum upp á að bjóða,“ sagði Skapti við Feyki.


Beðist er velvirðingar á að í nýjasta blaði Feykis kom ekki fram í þessari frétt að Hildur Claessen reki ræktunarbúið með Skapta Steinbjörnssyni. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir