Helga Una og Tóti í landsliðshóp LH 2021

Helga Una Björnsdóttir, Hestamannafélaginu Þyt, og Þórarinn Eymundsson, Skagfirðingi. Myndir af lhhestar.is.
Helga Una Björnsdóttir, Hestamannafélaginu Þyt, og Þórarinn Eymundsson, Skagfirðingi. Myndir af lhhestar.is.

Sigurbjörn Bárðarson þjálfari A-landsliðs LH hefur valið nýjan landsliðshóp fyrir árið 2021 en framundan er Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning í Danmörku næsta sumar. Tveir knapar úr hestamannafélögum á Norðurlandi vestra eru í hópnum og aðrir tveir sem tengjast svæðinu. Þórarinn Eymundsson, Skagfirðingi, og Helga Una Björnsdóttir, Þyt, voru valinn í fríðan hóp A landsliðs Íslands í hestaíþróttum en einnig fá ríkjandi heimsmeistarar og titilverjendur inngöngu.

Þar eru þeir Jóhann R. Skúlason frá Sauðárkróki, ríkjandi heimsmeistari í tölti, fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum og Bergþór Eggertsson frá Bjargshóli í Miðfirði, margfaldur heimsmeistari í skeiðgreinum. Báðir búa og starfa erlendis.

Helga Una Björnsdóttir hefur skapað sér gott orð á keppnisbrautinni undanfarin ár. Hún varð m.a. Íslandsmeistari í 100 m. skeiði árið 2016. Einnig varð hún Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2019.

Þórarinn Eymundsson stundar tamningar og reiðkennslu á Sauðárkróki og hefur náð góðum árangri í öllum keppnisgreinum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í hestaíþróttum. Árið 2007 vann Þórarinn til tveggja gullverðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestsins og var valinn knapi ársins sama ár. Þórarinn er reiðmeistari Félags tamningamanna.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir