Liðskynning KS deildarinnar - Íbess/TopReiter

Þriðja liðið sem kynnt er til leiks í KS-deildinni er Íbess/TopReiter. Jóhann B. Magnússon kúabóndi á Bessastöðum í Húnaþingi vestra er liðsstjórinn, harðsnúinn keppnismaður, fluglaginn og vel hestaður. Litli bróðir Jóa, Magnús Bragi Magnússon á Íbishóli, er þarna innanborðs, þekktur um allan heim og kemur sífellt á óvart.

Magnús er hæfileikareiðmaður mikill, ætíð með góð hross undir höndum segir á fésbókarsíðu KS deildarinnar.

Frá Lækjamóti koma hjónin Ísólfur Líndal og Vigdís Gunnarsdóttir. Ísólfur er einn allra öflugasti keppnismaður hér um slóðir. Frábær hestakostur og hæfileikar Ísólfs gera hann sigurstranglegan í vetur.

Vigdís hefur verið að gera góða hluti á undanförnum árum og mætir örugglega sterk til leiks.

Inn í þetta lið kemur ung stúlka af Suðurlandi alin upp við Skagfirsk hross af Kolkuóskyni, Fríða Hansen, sem stundar nám við Hólaskóla í vetur. Bæði Fríða og hross úr hennar ræktun hafa vakið athygli nú á síðari árum. Þarna er á ferðinni efnilegur knapi með góð hross.

Þetta lið lið gæti komið á óvart og halað inn mörg stig en þá verða Jói og Maggi að standa sig!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir