Óvænt brúðkaup á söguslóðum í Húnvatnshreppi

Sr. Ursula gefur hjónaleysin saman. AÐSENDAR MYNDIR.
Sr. Ursula gefur hjónaleysin saman. AÐSENDAR MYNDIR.

Það gerist ekki oft að brúðguminn mæti til kirkju óafvitandi þess að hann sér að fara að kvænast. En þannig var það svo sannarlega í tilfelli Jökuls Helgasonar er Guðný Elíasdóttir kom honum á óvart með óvæntu brúðkaupi. Giftu þau sig í Þingeyrakirkju í Húnavatnshreppi þann 30. júní síðastliðinn, í miðri hestaferð, og má segja að athöfnin hafi komið brúðgumanum jafn mikið á óvart og gestunum.

Lögðu hjónaleysin af stað í fimm daga hestaferð um söguslóðir í Húnaþingi. Er hópurinn sat í Tjarnarkirkju í einu stoppinu og hlustaði á tónleika með Atla Guðlaugssyni og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur leiddi Guðný hugann að því hversu yndislegt það væri að gifta sig við aðstæður sem þessar. Hún lét ekki þar við sitja heldur fékk samferðafólk sitt í lið með sér og á skömmum tíma var búið að skipuleggja brúðkaup í Þingeyrakirkju seinna í ferðinni, án vitundar Jökuls. Giftingarhringana útbjuggu faðir brúðarinnar og systir og voru þeir úr rafmagnsgirðingabandi.

Athöfnin fór svo fram í Þingeyrakirkju þann 30. júní síðastliðinn og gaf sr. Ursula Árnadóttir hjónin saman. Voru gestirnir og Jökull lokkuð til kirkju með það að yfirskyni að halda ætti aðra tónleika þar sem hinir hefðu nú tekist svo vel. „Við vorum nýkomin af baki og höfðum riðið Þingeyrasandana og 30 mínútum fyrir athöfnina var Jökull að járna fyrir fólk sem misst hafði skeifu undan hesti í ferðinni. Því vorum við vel skítug í athöfninni“ segir Guðný er hún rifjar upp daginn.

Hyggjast baða sig fyrir næstu athöfn

Að athöfn lokinni virtist Jökull ekki annað en sáttur við þetta allt saman og nefndi að hann hefði nú allavega þvegið sér um hendur hefði hann vitað hvað til stæði. Guðný og Jökull hafa verið saman í rúmlega fjögur ár og búa á Akranesi. Guðný er þaðan en Jökull er stoltur Snæfellingur. Samtals eiga þau fimm börn, þau Stefaníu, Örnu Jöru, Andreu Ínu, Birtu Kristínu og Elías Marvin. Því miður gat Arna Jara ekki tekið þátt í athöfninni og því ætla þau að vera með aðra athöfn og veislu þegar öll börnin geta verið með þeim og hyggjast vera hrein í það skiptið.

Aðspurð segir Guðný að hún hafi nú verið alveg viss um að Jökull segði já því þau hafi nú verið búin að ræða þetta eitthvað. Hún segir þetta einnig búið að vera mikið grín í fjölskyldunni hennar og mikið rætt af hverju þau væru ekki búin að drífa í þessu fyrir löngu. Nálægðin við Þrístapa hafi nú verið tilviljun og hún hefði síður viljað að pabbi hennar og föðurbróðir hefðu þurft að ríða með Jökul þangað til að verja heiður fjölskyldunnar. „Ég held að vestfirska þrjóskan úr móðurömmu minni, Rut Hallgrímsdóttur, og norðlenska hvatvísin úr föðurömmu minni, Rut Sigurmonsdóttur frá Kolkuósi, hafi rutt mér áfram í þessum gjörningi,“ segir Guðný að lokum.

Óskar Feykir þeim hjónakornum innilega til hamingju með ráðahaginn og alls hins besta í komandi hestaferðum og lífinu sjálfu.

/SHV

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir