Gengum úteftir til Búbba og keyptum Lindubuff

  • Hver er maðurinn?  Sigurlaug Margrét Bragadóttir ( Magga Braga )
  • Hverra manna ertu? Dóttir Laugu Sveins og Braga Sig 
    Árgangur?  Er svo heppin að tilheyra  “59 árgangnum, þessum eina sanna

Hvar elur þú manninn í dag?  Ég  bý á Borgarfirði eystri  í húsi sem heitir Vörðubrún og er í þorpinu Bakkagerði. 

Fjölskylduhagir?  Er í sambúð með Karli einum Sveinssyni og á með honum tvær dætur Kolbrúnu og Hallveigu 

Helstu áhugamál? Öll útivist svo sem fjallgöngur, reiðmennska, hundatúrar og gönguskíði, smíðar, garðvinna, ömmuhlutverkið og áfram mætti telja

Við hvað starfar þú?  Ég er grunnskólakennari og kenni hér við skólann og rek Álfacafé á sumrin

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ..notarlegt

Það er gaman... þegar Árni Egils mætir með hattinn á Bræðsluna

Ég man þá daga er ... við Maja Bödda gengum úteftir til Búbba og keyptum Lindubuff

Ein gömul og góð sönn saga.............

Það er nú það ég glími við óskaplega mikið minnisleysi frá þessum árum, nema hvað ég man hrekkina hennar Helgu nokkuð vel.  Einhvern tímann hafði ég sagt krökkunum að ég ætlaði hvorki að gifta mig né eiga börn heldur búa út í Noregi með norskum greifa og hafa það gott og ég gæti alveg passað krakkana sem þau ætluðu að eiga.  Ívar póstur var í sérlegu uppáhaldi hjá mér enda var maðurinn iðinn við að færa mér bréf.  Þetta voru hin skrautlegustu umslög frá hinum ýmsu löndum því það var mjög vinsælt að eiga útlenska pennavini.  Einn daginn kom hann með bréf sem prentað var utan á, ákaflega dularfullt og inn í því var ljóð um mig og norska greifann sem átti að syngjast við lagið Játning eftir Sigfús Halldórsson.  Strax grunaði mig nú að þarna væri Helga á ferð en hún vildi nú ekki kannast við það blessunin en játaði síðar að hún og Maja hefðu verið í skáldastuði.  Vísurnar á ég ennþá vel geymdar heima á Krók og hef nú hugsað mér að sýna þeim stöllum þær við gott tækifæri.

Spurning Helgu Stefaníu........

Spurning:  Af hverju gaf Yngvi Geirmunds þér nafnið ,,Magga persóna,,?

Það er nú það. Ég held að það hafi verið vegna þess að það fór ferlega í taugarnar á mér þegar verið var að segja að þessir og hinir  væru ljótir. Og ég benti kurteisislega á  að það ætti að dæma fólk eftir persónu þess en ekki útliti, það var náttúrlega alveg eftir Yngva að kalla mig svo ,,Möggu persónu,, eftir það

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu mundir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn....   Sigríði Sigmundsdóttur (Siggu Simma)

Hvað gerir þú til að viðhalda þínu góða minni ?

(og endilega leiðréttu mig ef persónusagan er vitlaus þú mannst þetta betur en ég)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir