Sem betur fer eru þær ekki til – María Björk Ásbjarnardóttir

Hver er maðurinn? María Björk Ásbjarnardóttir

Hverra manna ertu? Móðir mín er Fjóla Guðbrandsdóttir og faðir minn Ásbjörn Skarphéðinsson

Árgangur? Ég er fædd árið 1959 og þegar ég var krakki reiknaði ég út að ég yrði hundgömul aldamótaárið 2000

Hvar elur þú manninn í dag? Flutti á Klettagötuna í Hafnarfirði árið 1996 og bý þar enn. Við seldum húsið okkar á Sauðárkróki þó ekki fyrr en ári síðar því ég var alls ekki viss um að það væri skynsamlegt að flytja af Króknum

Fjölskylduhagir? Einhleyp með einn unga ennþá í hreiðrinu

Afkomendur? Við Stebbi eigum 2 börn, Sturlu sem er fæddur 1986 og Þórhildi sem fæddist 1990.  Sturla kraftakarl er á samningi að læra kjötiðn og Þórhildur bílasali er í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðamál í Háskólanum í Reykjavík

Helstu áhugamál?  Útivist, - mest þó göngur, er búin að ganga þvert yfir landið frá Reykjanestá að Fonti á Langanesi og það var æðislegt. Svo er ég aðeins að byrja í golfi og skotfimi, elska matargerð og svo er sveppatíminn kominn núna.

Við hvað starfar þú? Ég er verðbréfamiðlari og vinn hjá Byr – tilheyri sumsé stétt í útrýmingarhættu á Íslandi

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ………………… best

Það er gaman……………………. Að hitta gömlu skólafélagana af Króknum. Við förum oft í langan „löns“ og hittumst við ýmis tækifæri t.d. í grill heima hjá Steina og höfum haldið útihátíðina Halló Hagamelur hjá Helgu að ógleymdri Danmerkurferð til Jóns Helga núna í sumar

Ég man þá daga er……………………   maður gat keypt sér súkkulaðikúlur ef manni áskotnaðist tíeyringur því á þeim tíma voru þær aldrei seldar öðruvísi en í stykkjatali. Eitt skiptið eignaðist ég hundraðkallaseðil og fór því upp í  búðina til Pippa. Pippi hét Pétur og verslunin hans Verslunin Tindastóll. Þegar ég setti seðilinn á borðið og bað um súkkulaðikúlur fyrir, lagði Pétur hnúana á borðið og beygði sig fram og sagði þungri röddu : “SEM BETUR FER ERU ÞÆR EKKI TIL“

 

...svo man ég þá daga þegar við Stebbi frændi löguðum súpu í stórum potti og borðuðum hana í heila viku.  Ollí var ekki heima.

 

Ein gömul og góð sönn saga……………… Þegar ég var um sjö ára aldurinn og bjó á Hólmagrundinni bjó Ólöf Svandís (sem í þá daga var alltaf kölluð Olla Dís) við hliðina á mér og á móti á ská bjó Sigurlaug sem ævinlega var kölluð Laila. Laila var ári eldri en ég og Olla ári yngri. Angantýr pabbi Lailu rak verslun í kjallara hússins á Hólmagrund 1 og þar fengust ýmsar daglegar nauðsynjar s.s. tóbak og nýlenduvörur sem svo voru kallaðar.  Þetta var að sumri til og var búið að smíða forláta kofa úr timri bak við húsið hjá Ollu. Sem ég er að leika mér út á lóð mín megin, rekur Olla hausinn út um dyrnar á kofanum og bendir mér á að koma inn. Þegar ég nálgast kofann sé ég reyk leggja út um glufur á honum.  Þar inni voru þær stöllur, Olla og Laila að reykja sígarettur sem fengist höfðu í búðinni hjá Antantý. Þær leyfðu mér auðvitað að prófa líka. Þetta hafði ég aldrei reynt áður ... skipti engum togum að ég fæ þetta líka hóstakast og hendist upp – og út um dyrnar og lætin voru svo mikil að kofinn féll í sundur og reykinn lagði um allt!

Ég hef látið sígarettur eiga sig eftir þetta.

Spurt frá síðasta viðmælanda……………….. Þegar við fórum í skólaferðalag um Skagafjörðinn í 6. bekk vorum við flest allar í köflóttum skyrtum, rosalegar pæjur. Hvar fengum við þessar skyrtur?

 

Svar………… Guðbjörg mín, ég hef ekki hugmynd um hvar við fengum þessar skyrtur.

 Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn………….  Sr. Elínborg Gísladóttir

Spurningin er……………… Í gagnfræðaskólanum þegar við vorum í tíma hjá Konna (Konráð Gíslasyni) þá átti hann það til að segja orðið „NÚ“ nokkuð oft í tímum. Þetta var þegar hann var að hlýða okkur yfir – orð fyrir orð.  Ég tók mig til og taldi nú-in í einum tímanum. Hversu mörg voru þau?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir