Yfirleitt með fæturna bak við hausinn - Hinir brottflognu

Hver er maðurinn? Jóhannes Hilmisson 

Hverra manna ertu? Barn foreldra minna (Huldu og Hilmis) sem aftur eru börn afa og ömmu sem voru Jón Gunnlaugsson og Guðrún Pétursdóttir og Jóhannes Ármannsson og Ása Stefánsdóttir en afarnir og ömmurnar hafa ekkert með Krókinn að gera.

Árgangur? 1959- Árið sem tónlistin dó (  en 3. febrúar 1959  var „The day the music died“)

 Hvar elur þú manninn í dag? Á höfuðborgarsvæðinu. Búsettur á Skuldanesi með útsýni yfir stórt og mikið sundlaugamannviki og gula vatnsrennibraut.

Fjölskylduhagir? Giftur Ástu Emmu Ingólfsdóttur rekstrartæknifræðingi.

Afkomendur? Við eigum Telmu Huld fædda 4. apríl 1994 og Hilmi Inga fæddan 5. apríl 2001 (klikkaði á að gera ráð fyrir aukadegi sem kom inn vegna hlaupárs, enda var stærðfræði aldrei mitt sterkasta fag).

Helstu áhugamál? Er almennt tiltölulega áhugamálalaus en hef þó tekið upp þann (ó)sið að hlaupa núna á gamals aldri. Er nokkuð fúll yfir því hvað mér finnst það gaman eftir allar yfirlýsingarnar í gegnum árin varðandi sportidióta.

Við hvað starfar þú? Sé um deild sem rekur fastanets símstöðvar Símans.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er……… best

Það er gaman að………… hitta gamla félaga – bara passa að hafa nógu langt á milli hittinga

Ég man þá daga ……..þegar við gengum Skagfirðingabraut frá Ábæ út að Gránu og til baka nokkrar ferðir á kvöldi. Stökum sinnum stoppað á Bláfelli við mikinn fögnuð og alúðleg viðbrögð starfsmanna þar.

Oft var svo stoppað fyrir utan hjá Steina Þórs á leiðinni heim og kjaftað og ekki hætt fyrr en Steini frétti allt í einu hjá okkur að það væri próf daginn eftir þannig að hann ætlaði aðeins að fara að kíkja í bækurnar fyrir morgundaginn. Þessi stutti undirbúningstími virtist þó aldrei koma að sök hjá honum.

Einnig man ég einu sinni  þegar við vorum á leið heim af æfingu í íþróttahúsinu og komum við hjá Pippa á Hólaveginum, 6 -8 strákar saman. Sá fyrsti bað um kók en gosið þurfti Pippi að sækja með þó nokkurri fyrirhöfn einhvers staðar bakatil. Þegar næsti bað líka um kók leit Pippi haukfráum augum yfir hópinn og spurði valdsmannslega hvort fleiri ætluðu að fá kók.

Eftir að 2 eða 3 höfðu gefið það til kynna og það var afgreitt var komið að næsta manni og hann bað um - Appelsín. Viðbrögðum Pippa við þessari ósk er ekki hægt að lýsa í svo stuttum stíl en eftir að hafa fullvissað sig um að fleiri ætluðu ekki að fá GOS, var Appelsínið sótt.

En Adam var ekki lengi í Paradís því seinasti maður var Steini Þórs og hann fékk sér alltaf GRÆNAN FROSTPINNA. Óþarfi er kannski að taka fram að ísinn var geymdur einhvers staðar bakatil, líklega við hliðina á gosinu. Þessa stuttu kvöldstund lærðum við ýmisleg tilbrigði við íslenskt mál sem okkur hafði ekki verið  var kennt í Gagnfræðaskólanum ásamt upplifun fyrir lífstíð á fjölbreytileika mannlegra samskipta.

Ein gömul og góð sönn saga…….. Þegar við fórum í skólaferðalagið eftir landspróf þá var nýlega búið að opna hringveginn og var því ákveðið að fara hringinn. Á þeim tíma vissi ég allt um landafræði Íslands og því þótti mér alveg tilgangslaust að vera að fylgjast með landslaginu út um bílrúðuna. Í þá daga var ekki til siðs að vera með öryggisbelti í langferðabílum þannig að maður gat legið makindalega ofan í sætinu og gerði ég það alla leiðina. Að ferðalaginu loknu var ég kominn með svöðusár neðarlega á bakinu sem gröftur og vessar flóði úr og var þá sendur til Friðriks læknis.

Friðrik kíkti sem snöggvast á þetta og tjáði mér að mjög líklega væri ég kominn með sykursýki.

Friðrik var maður með mikla reynslu og mjög ákveðið fas þannig að ég hafði enga burði í mér að upplýsa hann um það í hvernig stellingu ég hafði verið í 5 daga rútuferð og fór ég því heim með þessa sjúkdómsgreiningu. Er ég líklega eini maðurinn í heiminum sem hef fengið sykursýki af því einu að fara hringinn. Hún rjátlaði þó af mér þegar sárið greri um sumarið og hef ég ekki orðið hennar var síðan. Hins vegar þorði ég ekki að fara hringinn aftur fyrr en nú í sumar -35 árum síðar.

Annað sem mér er minnisstætt frá þessari ferð var þegar við fréttum, þá stödd einhvers staðar fyrir austan,  að Anna Veiga bekkjasystir okkar væri búin að eignast strák, sem síðar fékk nafnið Sigurpáll Geir, en faðirinn er Svenni bróðir Ingva Geirmunds. Þá rukum við til og óskuðum Ingva til hamingju en hann brást hógvært við og fannst óþarft að vera að óska sér til hamingju því eins og hann sagði: “ Ég átti nú minnstan þátt í þessu“.

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Jói, kemur þú ennþá öðrum eða báðum fótum bak við haus og hafir þú reynt það nýlega náðir þú þeim til baka?

Svar: Já ,ég er yfirleitt með fæturna bak við hausinn. Það er þægileg stelling að flestu leiti nema hvað það er erfitt að svara tölvupóstum.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn.............Þorsteinn Þórsson

Spurningin er..................Smakkast grænu frostpinnarnir í dag eins og í gamla daga?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir