Þú skalt ekki hneykslast!

Herra Hundfúll hefur verið í andlegri krísu síðan Reykjavíkurdætur dilluðu sér og sínum í ljósbláum sjónvarpsþætti Gísla Marteins á dögunum. Eftir að hafa slafrað í sig ýmis misgáfuleg ummæli á samfélagsmiðlum þjóðarinnar ætlaði Herra Hundfúll að hneykslast ærlega hér á Feyki.is en dúkka þá ekki upp bloggpistlar frá umburðarlyndum prestum sem láta svona tíví-perr sem vind um augu þjóta.

Keyrði um þverbak þegar Hildur Eir boðaði Herra Hundfúlum (sem og öðrum þegnum landsins) að það væri með öllu óviðeigandi að hneykslast. Ef Hundfúll skildi prestinn rétt þá væri hneyksl óheilbrigt og strýddi algjörlega gegn öllu því sem Jesú Kristur stóð fyrir. Hneykslun var fyrir honum bara tímaeyðsla og vitleysa en aftur á móti mátti Herra Hundfúll reiðast því reiðin er holl og góð tilfinning (eða í það minnsta sönn) og brennir örugglega fleiri kaloríum en hneykslunin sem skilur að líkindum eftir sig óæskilegar mjólkursýrur í liðamótum að ógleymdu andlegu sleni. Þrátt fyrir nokkra leit hefur Hundfúll ekki rekist á þetta boðorð – þú skalt ekki hneykslast – í nýjustu testamentunum en hann á auðvitað alveg eftir að taka próf í því að lesa á milli línanna.

Eftir nokkra yfirlegu og umhugsun dettur Hundfúlum ekki í hug að ganga gegn boðum og hneykslunarbönnum Hildar sem hittir oftar en ekki nagla beint í hneykslunargjarna þverhausa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir