16 þristar verðlaunaðir með 16 Risa Þristum

Brynjar ásamt syni sínum og gjöfinni góðu. MYND: KKD. TINDASTÓLS
Brynjar ásamt syni sínum og gjöfinni góðu. MYND: KKD. TINDASTÓLS

Það var smá húllumhæ í Síkinu í gær þar sem leikmenn Tindastóls voru á lokaæfingu fyrir jólafrí og lokaleik fyrri umferðar Dominos-deildarinnar sem fram fer í Keflavík í kvöld. Í tilefni af Íslandsmeti Brynjars Þórs Björnssonar í þristahittni á dögunum tók stjórn körfuknattleiksdeildar sig til og færði kappanum ágæta gjöf; treyjuna sem hann spilaði í í leiknum og 16 Risa Þrista.

Í frétt á Facebook-síðu Kkd. Tindastóls segir frá því að allt liðið hafi gætt sér á Þristum að lokinni æfingu og þar er einnig að finna fleiri myndir frá uppákomunni. Ef einhver er ekki að fatta af hverju Brynjar Þór fékk 16 Risa Þrista þá er það vegna þess að hann gerði 16 risa þrista þegar hann setti nýja metið.

Þá er gaman að geta þess að í nótt setti Houston Rockets met í þriggja stiga skotum í NBA deildinni þegar liðið setti niður 26 þrista í sigurleik, 136-118, gegn Washington Wizards. Það eru jafn margir þristar og leikmenn Tindastóls settu niður gegn Breiðablik á dögunum. Stólarnir notuðu örlítið fleiri skot en Rockets til að ná þessum árangri en höfðu aðeins 40 mínútur til að klára verkið á meðan NBA liðið gat dundað við þetta í 48 mínútur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir