„Áður en ég vissi af voru allar komnar í kringum mig öskrandi af gleði“

Hugrún Pálsdóttir. MYNDIR: ÓAB
Hugrún Pálsdóttir. MYNDIR: ÓAB

Það var Hugrún Pálsdóttir sem gerði fyrsta mark Tindastóls í efstu deild og ágætt fyrir þá sem hafa gaman að fótbolta pub-quizzi að muna þá staðreynd. Markið gerði hún eftir hornspyrnu á 36. mínútu og virtist ætla að duga til sigurs en Þróttur jafnaði í uppbótartíma og liðin skildu því jöfn. Hugrún hefur alla tíð spilað fyrir Tindastól, á að baki 117 leiki og hefur skorað 19 mörk. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir markaskorarann í morgun og byrjaði á að spyrja hvernig tilfinningin hafi verið að skora fyrsta mark Tindastóls í efstu deild.

„Þetta gerist svo hratt að ég þorði varla að fagna strax, var einhvernvegin bara að bíða eftir því að dómarinn myndi dæma það af einhverra hluta vegna en áður en ég vissi af voru allar komnar í kringum mig öskrandi af gleði og þá var þetta rosalega góð tilfinning! En ég var bara á réttum stað á réttum tíma, eftir góða hornspyrnu frá Laufeyju.“

Hvernig var stemningin í liðinu fyrir leikinn? „Stemmingin fyrir leikinn var mjög góð, við höfðum beðið eftir þessu lengi og það var loksins komið að þessu, að fá fyrsta leikinn heima var líka alveg geggjað!“

Hvernig var andrúmsloftið í klefanum að leik loknum? „Það var vissulega mikið svekkelsi að missa sigurinn í jafntefli í uppbótartíma, sérstaklega þar sem við náðum að verjast vel í opnu spili en markið kemur úr aukaspyrnu á erfiðum stað og algjörlega óverjandi skot og í rauninni ekkert sem við gátum gert á þeim tímapunkti til að stöðva það. En mér finnst samt smá flott að við komum úr fyrsta leiknum í Pepsi svekktar yfir því að fá ekki stigin þrjú, því það bjuggust ekki margir við þeirri frammistöðu frá okkur – nema auðvitað okkar stuðningsmenn! Og það þýðir líka að við mætum vel hungraðar í næsta leiki, við vitum alveg að við getum staðið í þessum liðum og sótt fleiri stig!“

Hvernig leggst framhaldið í sumar í þig? „Sumarið leggst vel í okkur. Við höfum haft frekar þunnan hóp nú á síðustu vikum þar sem mikið hefur verið um meiðsli, sem hefur verið stressandi, en það er eins og allt hafi náð að smella saman fyrir fyrsta leik og erum loksins meira og minna heilar.“

Er einhver leikur sem liðið er verulega spennt fyrir? „Við erum bara spenntar fyrir því að mæta fleiri liðum í þessari deild. Persónulega er ég spenntust fyrir heimaleikjunum, að bjóða þessum stóru liðum heim! Næsti heimaleikur er t.d. á móti ÍBV frá Vestmannaeyjum, ég man ekki eftir því að hafa fengið þær heim áður!“ segir Hugrún að lokum.

Risa hrós á allar stelpurnar

Feykir tók sömuleiðis púlsinn á Óskari Smára Haraldssyni í þjálfaradúettnum eftir leik en púlsinn hjá honum hefur örugglega verið í hærri kantinum í gærkvöldi á meðan leikurinn var í gangi. Óskar Smári segist ánægður með leikinn. „Auðvitað rosalega svekkjandi að fá þetta jöfnunarmark á sig en það er ekkert við því að gera heldur bara virða stigið og áfram gakk. Baráttan og viljinn var frábær og liðsheildin góð. Risa hrós á allar stelpurnar, ekki bara þær sem spiluðu heldur allan hópinn. Við þjálfararnir fundum hvað allir stóðu saman og okkur finnst að við hefðum verðskuldað þrjústig. Fyrri hálfleikur var mjög flottur, en það dró aðeins af okkur í seinni.“

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá leiknum í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir