Andrea og Þóranna með Íslandsmeistaratitla á MÍ 15-22

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir Íslandsmeistari í hástökki. Mynd af FB-síðu Þórönnu.
Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir Íslandsmeistari í hástökki. Mynd af FB-síðu Þórönnu.

Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram um helgina á Laugardalsvelli þar sem 204 keppendur frá 17 félögum víðs vegar að af landinu voru skráðir til keppni. Fyrirfram var búist við sterkri og spennandi keppni þar sem  á meðal keppenda voru Íslandsmeistarar úr fullorðinsflokki og keppendur af EM, HM og NM í flokki unglinga fyrr í sumar. Keppendur af Norðurlandi vestra voru meðal þátttakenda og átti UMSS tvo Íslandsmeistara.

Á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands segir að veðrið hafi leikið við keppendur og áhorfendur á fyrri keppnisdegi og aðstæður til bætinga voru góðar og margir sem nýttu sér það. Tíu mótsmet féllu og fjölmargir bættu sín persónulegu met. Ekki voru aðstæður síðri seinni daginn enda héldu keppendur áfram að bæta sig og mótsmet héldu áfram að falla sem og fyrri daginn.

Keppendur UMSS stóðu sig vel og náðust tveir Íslandsmeistaratitlar.

Andrea Maya Chirikadzi varð Íslandsmeistari í kúluvarpi stúlkna 15 ára en hún kastaði kúlunni 11,16 metra. Andrea tók þátt í fleiri kastgreinum; sleggjukasti og krækti í 3. sætið er hún varpaði sleggjunni 22,93 metra, kringlukasti með kast upp á 27,42 metra sem er persónuleg bæting og 4. sætið að launum, og spjótkasti en þar lenti hún í 5.sæti með kast upp á 29,17.

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki í flokki 20-22 ára er hún sveif yfir 1,68. Hún tók einnig þátt í þrístökki og kringlukast og landaði 3. sætinu í báðum greinum. Stökk hún 10,52 metra og kastaði kringlunni 25,7 metra.

Kristinn Freyr Briem náði 2. sætinu í 200 m hlaupi pilta 18-19 ára á tímanum 23,99 sek. Í 100 metrunum tók hann 3. sætið á 11,71 sek.

Sveinbjörn Óli Svavarsson bætti sinn persónulega árangur í 100 metra hlaupi 20-22 ára er hann brunaði í mark á 11,25 sekúndum og sama varð uppi á teningnum í 200 metra hlaupinu. þar bætti hann einnig sinn persónulega árangur er hann hljóp á 23,01 sekúndum, sama tíma og Sindri Magnússon úr Breiðabliki og skiptu þeir 3. og 4. sætinu á milli sín.

Stefanía Hermannsdóttir gerði vel er hún krækti í 2. sætið í spjótkasti 15-16 ára stúlkna er hún kastaði 31,79 metra og annað sætið var einnig hennar í kringlukast er hún kastaði 31,33 metra sem er persónulegt met.. Þá endaði hún í 5. sæti í kúluvarpi með kast upp á 9 metra.

Aníta Ýr Atladóttir bætti sinn persónulega árangur í spjótkasti 16-17 stúlkna og fékk 3. sætið að launum er hún kastaði 34,60 metra. Þá náði hún 4. sæti í kúluvarpi og kringlu með kast upp á 10,59 metra í kúlu og kringlunni þeytti hún 24,88 metra.

Rúnar Ingi Stefánsson tók 3. sætið í kúluvarpi pilta 18-19 ára með 12,41 metra löngu kasti og varð það persónuleg bæting. Einnig bætti hann árangur sinn í spjótkasti er hann kasti 42,65 metra.

Þá endaði Hákon Ingi Helgason í 7. sæti í 100 metra hlaupi pilta 16-17 ára er hann hljóp á 11, 94 sek.

Frá USAH mætti Magnús Sólberg Baldursson og stóð sig vel er hann landaði 2. sætinu í 100 metra grindarhlaupi í flokki 15-16 ára. Hljóp hann á 16,76 sekúndum. Í langstökki hafnaði hann í 5.sæti með stökk upp á 5,09 og í 200 metra hlaupi náði hann 6. sæti á 26,93 sekúndum og bætti sinn persónulega árangur.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir