Anna Karen, Daníel, Ísak Óli, Murr og Arnar tilnefnd hjá UMSS

Þann 27. desember nk. mun Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) og sveitarfélagið Skagafjörður halda sína árlegu hátíðarsamkomu þar sem tilkynnt verður hver hlýtur kosningu íþróttamanns ársins, lið ársins og þjálfara ársins. Á þessari hátíðarsamkomu eru allir þeir sem eru tilnefndir af sínum íþróttafélögum boðaðir og þeim veittar viðurkenningar en einnig fá fær ungt afreksfólk sem hefur verið tilnefnt til Hvatningarverðlauna UMSS sínar viðurkenningar.

Í ár eru fimm íþróttamenn tilnefndir til Íþróttamanns ársins 2023. Það eru þau; Anna Karen Hjartardóttir kylfingur í Golfklúbbi Skagafjarðar, Daníel Gunnarsson hestamaður í Hestamannafélaginu Skagfirðing, Ísak Óli Traustason, frjálsíþróttamaður í Umf. Tindastól, Murielle Tiernan knattspyrnumaður í Umf. Tindastól og Sigtryggur Arnar Björnsson körfuknattleiksmaður í Umf. Tindastól.

Kosningu lýkur þann 21.des, en þeir sem kjósa íþróttamenn, lið og þjálfara eru fimm aðilar í stjórn UMSS, þrír fulltrúar frá félags- og tómstundarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar, ritstjóri fréttablaðsins Feykis og forstöðumaður frístunda- og íþróttamála í Skagafirði.

Kosið er um þrjú efstu sætin, fyrsta (1.) sæti gefur 10 stig, annað sæti (2.) gefur 7 stig og þriðja (3.) sæti gefur 5 stig.

Þrjú lið eru tilnefnd sem lið ársins; kvennasveit Golfklúbbs Skagafjarðar, meistaraflokkur karla í körfuknattleik Umf. Tindastóll og meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu Umf. Tindastól.

Til þjálfara ársins eru sex aðilar tilnefndir; Annika Líf Maríudóttir Noack Umf. Tindastóll júdódeild, Atli Freyr Rafnsson Golfklúbbi Skagafjarðar, Halldór Jón Sigurðsson Umf. Tindastóll knattspyrnudeild, Pavel Ermolinski Umf. Tindastóll körfuknattleiksdeild og Sigurður Arnar Björnsson Umf. Tindastóll frjálsíþróttadeild.

Öllum aðildarfélögum og deildum innan UMSS er einnig heimilt að tilnefna einn pilt og eina stúlku sem hlýtur Hvatningarverðlaun UMSS. Tilnefningin skal veitt þeim íþróttamanni sem er áhugasamur, með góða ástundun, sýnir góða hegðun innan vallar sem utan, er góður félagi og telst vera góð fyrirmynd annarra unglinga.

Lista yfir þá sem hljóta Hvatningarverðlaun UMSS og þá sem fá styrk úr Afrekssjóði UMSS má sjá í frétt á vef UMSS >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir