Atli Víðir og Ingvi Þór píluðu til sigurs

Þrjú hlutskörpustu pörin í gærkvöldi. Frá vinstri: Hlynur Freyr, Einar Gísla, Atli Víðir, Ingvi Þór, Hannes Már og Már. MYND AF SÍÐU PS
Þrjú hlutskörpustu pörin í gærkvöldi. Frá vinstri: Hlynur Freyr, Einar Gísla, Atli Víðir, Ingvi Þór, Hannes Már og Már. MYND AF SÍÐU PS

Fyrst pílumótið eftir sumarfrí fór fram í gærkvöldi hjá Pílukastfélagi Skagafjarðar. Spilaður var svokallaður tvímenningur en tíu lið mættu til leiks. Fram kemur í færslu á Facebook-síður félagins að kvöldið hafi verið virkilega skemmtilegt og mikil stemning. Það voru þeir Atli Víðir og Ingvi Þór Óskarsson sem fóru með sigur af hólmi en þeir lögðu feðgana Einar Gíslason og Hlyn Frey Einarsson í úrslitaleik

Í þriðja sæti urðu feðgarnir Hannes Ingi Másson og Már Hermannsson frá Hvammstanga en þeir sigruðu feðginin Önnu Karen og Hjört Geirmundsson í leik um þriðja sætið. Í færslunni er pílufélögum í Pílufélagi Hvammstanga þakkað fyrir komuna og keppendum öllum fyrir gott mót.

Í öðrum pílufréttum er það helst að Arnar Geir Hjartarson úr Pílufélagi Skagafjarðar tók þátt í riðlakeppni úrvalsdeildarinnar sem fram fór á Bullseye sl. miðvikudag. Sigurvegarar hvers riðils fara í undanúrslit en riðlarnir eru átta. Arnar Geir komst með glæsibrag í undanúrslit í fyrra en að þessu sinni hafðist það ekki. Hann vann fyrstu tvær viðureignir sínar gegn Alex Mána og Brynju Herborg og mætti Arnar síðan Arngrími Antoni í lokaumferð riðilsins en hann hafði einnig sigrað í sínum viðureignum. Arngrímur hafði betur og Arnar Geir sat því eftir þrátt fyrir ágæta frammistöðu.

Í dag eru tveir félagar í Pílukastfélagi Skagafjarðar á kastskónum í Grindavík þar sem Íslandsmótið í 301, tvímenningi, fer fram. Þetta eru þeir Jón Oddur Hjálmtýsson og Júlíus Helgi Bjarnason. Áhugasamir geta fylgst með mótinu í youtube streymi frá mótinu á Live Darts Iceland og einnig á TV DartConnect.com.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir