Axel Kára tekur skóna fram á ný

Það eru góðar fréttir sem heyrast af dýralækninum úr Blönduhlíðinni. Hann hefur dregið skóna fram að nýju eftir örstutta pásu sem vonandi hefur reynst vel. Mynd af Facebooksíðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Það eru góðar fréttir sem heyrast af dýralækninum úr Blönduhlíðinni. Hann hefur dregið skóna fram að nýju eftir örstutta pásu sem vonandi hefur reynst vel. Mynd af Facebooksíðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Þá er boltinn farinn að rúlla aftur eftir jólafrí og ýmislegt í gangi hjá körfuknattleiksdeild Tidastóls. Á Facebook-síðu deildarinnar kemur fram að Axel Kárason sé aftur kominn í æfingahóp meistaraflokks en eins og kunnugt er hefur Axel verið í pásu frá körfu síðan í haust.

Urald King er kominn aftur í Skagafjörð eftir fæðingarorlof en frumburður hans kom í heiminn þann 28. nóvember og PJ. Alawoya sem spilaði með Tindastóls í fjarveru hans hefur haldið aftur til síns heima. Óhætt er að fullyrða að Alawoya hafi staðið undir væntingum og hjálpað liðinu að koma sér á toppinn.

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Axel Kárason sem segist hafa saknað boltans og þess að vera í hringiðunni. „Það er skemmtilegt að vera hluti af hópi sem reynir að skara fram úr. Ég fann aðeins fyrir því að lífið var kannski fullrólegt fyrir áramót. Eftir öll þessi ár í meistaraflokki þá var það orðið normið að spila körfubolta. Ég þurfti samt sem áður að einbeita mér að öðrum verkefnum í lífinu í smástund og það gekk vel,“ sagði Axel við blaðamann Mbl.

Næsti leikur Tindastóls í Domino´s deildinni verður nk. sunnudagskvöld í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn og strax á fimmtudeginum á eftir mæta Valsmenn í Síkið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir