Baldur Þór nýr þjálfari Tindastóls

Frá undirritun samnings í stássstofunni á Sjávarborg. F.v. Dagur Þór Baldvinsson formaður unglingaráðs, Baldur Þór Ragnarsson nýráðinn þjálfari Tindastóls og Ingólfur Jón Geirsson formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Aðsend mynd.
Frá undirritun samnings í stássstofunni á Sjávarborg. F.v. Dagur Þór Baldvinsson formaður unglingaráðs, Baldur Þór Ragnarsson nýráðinn þjálfari Tindastóls og Ingólfur Jón Geirsson formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Aðsend mynd.

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ráðið Baldur Þór Ragnarsson sem þjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára en jafnframt mun hann hafa yfirumsjón með styrktarþjálfun beggja meistaraflokka, kvenna og karla. Baldur kemur til Tindastóls frá Þór Þorlákshöfn, þar sem hann náði mjög góðum árangri með liðið á síðasta tímabili.

„Körfuknattleiksdeild Tindastóls lítur björtum augum á framtíðina með góðan kjarna af heimamönnum og ferskan andblæ frá nýjum ungum þjálfara. Erum við mjög ánægð að fá Baldur í hópinn. Hann er klár, ákveðinn og gríðarlega metnaðarfullur þjálfari sem hefur skýra sýn á stefnu og framtíð Tindastóls,” sagði Ingólfur Jón Geirsson, formaður deildarinnar við undirritun samningsins. Baldur var jafnframt spenntur fyrir komandi tímabili og nýju verkefni

Baldur Þór Ragnarsson í leik með Þór Þorlákshöfn. Mynd: Hjalti Árna.

„Það er mjög spennandi og krefjandi verkefni að taka við Tindastóls liðinu. Hér hefur verið vandað til verka í mörg ár og hlakka ég til að setja minn brag á liðið. Góðir leikmenn hafa komið upp í gegnum starfið hér seinustu ár og það verður gaman að vinna að því að koma fleiri leikmönnum upp í meistaraflokkinn í samvinnu við þjálfara yngri flokkana.  Þjálfun meistaraflokks Tindastóls verður bæði krefjandi og skemmtilegt. Ég hef mína hugmyndafræði sem ég vil koma í framkvæmd. Við viljum leggja mikið á okkur, búa til sterka menningu innan liðsins, vera einbeittir, ákveðnir en jafnframt óeigingjarnir og setja liðið og liðsheildina framar öllu. Það er mikil tilhlökkun að koma inn í þetta körfuboltasamfélag sem Sauðárkrókur er og hlakka ég mikið til samstarfsins með leikmönnum, sjálfboðaliðum og ekki síst stuðningsmönnum.“ sagði Baldur Þór við undirritun samningsins.

Baldur Þór verður í veigamiklu hlutverki hjá Tindastól þar sem hann verður yfirþjálfari yngri flokka Tindastóls ásamt því að stýra Körfuboltaakademíu Tindastóls og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Markmið deildarinnar er að bjóða upp á bestu þjálfun sem völ er á fyrir yngri iðkendur, móta þjálfunarstefnu félagsins og leiðbeina þjálfurum yngri flokka. Baldur mun einnig sjá um styrktarþjálfun fyrir yngri flokka körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

„Körfuboltaakademía Tindastóls og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra hefur notið mikilla vinsælla meðal nemenda á framhaldsskólastigi og er mikill styrkur að fá Baldur Þór til að stýra þjálfun í Akademíunni. Stjórn KKD Tindastóls býður Baldur Þór velkominn í Skagafjörðinn og ríkir mikil tilhlökkun að fá hann starfa,“ segir Ingólfur Jón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir