Blómlegt starf hjá USAH

Það er mikiðum að vera hjá USAH þessa dagana en þar er nýlokið héraðsmóti og í dag er það svo yngsta kynslóðin sem fær að njóta sín á barnamóti. Framundan er svo Blönduhlaupið sem haldið er á Húnavöku ár hvert.

Barnamót USAH verður haldið á Blönduósi í dag, miðvikudaginn 17. júlí, og hefst það klukkan 18:00.
Mótið er ætlað börnum sem fædd eru árið 2009 eða síðar, þ.e. 10 ára og yngri.

Keppnisgreinar eru 60 m hlaup, 600 m hlaup, boltakast og langstökk. að móti loknu fá allir viðurkenningu og hressingu. USAH hetur alla foreldra, ömmur, afa, frænkur, frændur, systkin eða þá sem það geta til að mæta með börnin og hafa gaman.

Héraðsmót USAH í frjálsum íþróttum var haldið í síðustu viku, dagana 10. og 11. júlí. Góð þátttaka var í mótinu sem fram fór á Blönduóssvelli. Keppendur frá fjórum félögum háðu keppni en keppt var í fimm aldursflokkum, 10-11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára 16-19 ára og 20 ára og eldri.   

Það var Umf. Hvöt á Blönduósi sem fór með sigur af hólmi í stigakeppni félaganna en liðið hlaut 426,5 stig. Í öðru sæti varð Umf. Fram á Skagaströnd með 391 stig, UMFB varð í þriðja sæti með 282 stig og Umf. Geislar varð í fjórða sæti með 240,5 stig.

Blönduhlaupið verður svo haldið á laugardaginn kemur, þann 20. júlí, en það er árviss atburður á Húnavöku. Hlaupið verður ræst klukkan 11:00 við útibú Arion banka við Húnabraut.

Keppt verður í þremur flokkum:
2,5 km: 15 ára og yngri – 16 ára og eldri (skemmtiskokk).
5,0 km: 15 ára og yngri – 16 til 34 ára – 35 ára og eldri.
10 km: 34 ára og yngri – 35 ára og eldri.

Þátttökugjald er 1.500 kr. fyrir 12 ára og yngri og 2.500 kr. fyrir 13 ára og eldri. Þátttakendur fá frítt í sund hjá íþróttamiðstöðinni á Blönduósi að hlaupi loknu.

Skráning í hlaupið fer fram í Félagsheimilinu á Blönduósi klukkan 10:00 á hlaupadag en einnig er hægt að forskrá sig í hlaupið með því að senda tölvupóst á usah540@simnet.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir