Dramatískur baráttusigur Stólastúlkna í Hertz-hellinum

Telma Ösp hefur komið sterk til leiks með liði Tindastóls í haust. MYND: HJALTI ÁRNA
Telma Ösp hefur komið sterk til leiks með liði Tindastóls í haust. MYND: HJALTI ÁRNA

Það voru 57 áhorfendur sem skelltu sér í Hertz-hellinn í Breiðholtinu í dag til að fylgjast með leik ÍR og Tindastóls í 1. deild kvenna í körfunni. Bæði lið höfðu tapað einum leik á mótinu til þessa en unnið afgang en Stólastúlkur voru í efsta sæti, höfðu spilað leik meira en ÍR. Það var því talsvert undir og á endanum fóru leikar þannig, eftir hörkuleik, að lið Tindastóls fór með stigin tvö norður eftir að Tess setti niður þrist þegar 8 sekúndur voru eftir. Lokatölur 63-64.

Lið Tindastóls hóf leikinn betur, Marín Lind gerði fimm fyrstu stig Tindastóls og Telma Ösp bætti við þristi og staðan 3-8. Lið ÍR komst fljótlega yfir en það voru gestirnir sem voru þó yfirleitt skrefinu á undan en að loknum fyrsta leikhluta var staðan 18-18. Tess Williams gerði fyrstu stigin sín í byrjun annars leikhluta og hún skoraði grimmt í fjórðungnum. Hera Sigrún kom Stólunum ellefu stigum yfir, 21-32, þegar rúmar þrjár mínútur voru til leikhlés en heimastúlkur í ÍR söxuðu á forskotið og staðan 28-34 í hálfleik.

Telma og Marín Lind gerðu fyrstu körfur Tindastóls í síðari hálfleik og Stólastúlkur héldu átta stiga forystu fram yfir miðjan þriðja leikhluta. Þá kom Króksarinn Birna Eiríks (Hansen) sterk inn hjá ÍR og á skömmum tíma höfðu Breiðhyltingar minnkað muninn í eitt stig, 42-43, og Birna kom ÍR svo yfir með næstu körfu. Hrefna Ottósdóttir svaraði með þristi og bætti öðrum við stuttu síðar og staðan 46-49 fyrir lokafjórðunginn. 

Lið ÍR jafnaði með þristi og Birna setti niður eitt víti til að koma heimastúlkum yfir í byrjun fjórða leikhluta og síðan kom langur kafli þar sem ekkert var skorað. ÍR komst þremur stigum yfir en þá komu fimm stig í röð frá Tess, staðan 52-54 og fimm mínútur eftir. Heimastúlkur voru fljótar að jafna og þegar þrjár mínútur voru eftir voru þær komnar fjórum stigum yfir. Tess minnkaði í eitt stig en þristur frá Birnu jók muninn á ný í fjögur stig. Hrefna Ottós setti tvö stig á töfluna fyrir Stólastúlkur og í næstu sókn misstu ÍR-ingar boltann og Tindastóll tók leikhlé þegar 24 sekúndur voru eftir og staðan 63-61. Eðlilega var það Tess sem átti að skjóta en 2ja stiga stökkskot hennar geigaði, Marín Lind náði sóknarfrákastinu, Hrefna kom boltanum á Tess sem setti niður 3ja stiga skot, það eina sem fór niður hjá henni í þremur tilraunum, og lið Tindastóls stigi yfir þegar átta sekúndur voru til leiksloka. ÍR tók leikhlé en sniðskot þeirra vildi ekki niður og Stólastúlkur fögnuðu því sætum sigri.

Sterkur sigur hjá stelpunum en skotnýting liðsins var talsvert betri en hjá ÍR en heimastúlkur voru töluvert sterkari í frákastabaráttunni. Tess var stigahæst með 24 stig, Hrefna skilaði 18 stigum og þar af var hún 4/5 í 3ja stiga skotum. Þá var Marín Lind með tíu stig, Telma Ösp níu, Hera Sigrún tvö og Katrín Eva eitt. Allir leikmenn Tindastóls fengu fínan spilatíma í dag hjá Árna Eggerti þjálfara, nema Valdís Ósk sem hefur átt við meiðsli að stríða og kom ekki við sögu.

Næsti leikur Stólastúlkna, sem tróna nú á toppi 1. deildar, verður nk. laugardag þegar þær mæta liði Fjölnis í í Dalhúsi í Grafarvoginum. Stuðningsmenn Stólanna eru hvattir til að fjölmenna og styðja stelpurnar sem gefa aldrei þumlung eftir – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir