„Ég elska fótbolta og hann er mjög stór partur af lífi mínu“/Erlendir leikmenn í boltanum

Jonathan Mark Faerber, markvörður m.fl. Tindastóls. Mynd: ÓAB
Jonathan Mark Faerber, markvörður m.fl. Tindastóls. Mynd: ÓAB

Ástralski markvörðinn Jonathan Mark Faerber er næstur í röðinni í Erlendir leikmenn í boltanum. Jonathan er 31 árs gamall og kom hingað til Íslands fyrst árið 2017 og spilaði með Reyni Sandgerði. Árið eftir spilaði hann með Keflavík en nú er hann mættur á Krókinn.

Hvernig kom það til að þú ert að spila fótbolta á Íslandi og hvar spilaðir þú áður en þú komst hingað? Ég hef ferðast víða um heiminn í þó nokkurn tíma og Ísland er þekkt fyrir að vera einstakt og framandi land. Vera mín hér á Íslandi hefur algjörlega sannað að þetta er hárrétt. Ég algjörlega ELSKA Ísland. Landið, menningin, fólkið, allt er hreinlega geggjað í þeirri jákvæðustu mynd sem hægt er að lýsa.

Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? Það sem hefur komið mér mest á óvart við Ísland er reyndar ein rökréttasta staðreyndin sem ég hef uppgötvað. Íslendingar eru taldir einangraðir og erfitt að ná að kynnast. En hins vegar, eftir að ísinn hefur verið brotinn við fyrstu kynni (auðveldast að kynnast í gegnum sterka drykki) þá er maður allt í einu orðinn partur af fjölskyldu. Það er einhvern veginn ekkert grátt svæði milli ókunnugs og fjölskyldu. Ísland hefur kaldasta loftslag sem ég hef nokkurn tímann búið í, en aftur á móti þá býr kærleiksríkasta fólk sem ég hef kynnst hérna á Íslandi. Þó svo að þetta hafi komið mér mikið á óvart, þá meikar það svo fullkomið „sense“. Á hvaða annan hátt væri hægt að lifa af þennan kulda og frost, nema með kærleika og umhyggju.

Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn? Uppáhalds liðsfélagi, ja hérna, það er eins og að þurfa að velja uppáhalds matinn sinn, óhugsandi. Ef ég verð að velja, þá vel ég vin minn hann Atla Dag, markmannateymið stendur saman.

Hvaða væntingar hafðirðu til sumarsins á Íslandi? Vonir mínar sem ég bind við veru mína hér á Íslandi, er tíminn sem ég fæ að upplifa hér. Ég elska fótbolta og hann er mjög stór partur af lífi mínu. En það er svo mikið meira sem hægt er að læra og upplifa á þeim tíma sem maður fær í hverju landi. Ég elska að sökkva mér í menninguna til að kynnast landinu betur. Þó svo að ég geti ekki tjáð mig á íslensku, þá reyni ég ; „Ég er að læra íslensku, af því ég held að það sé mjög mikilvægt að læra. Einn daginn mun þetta vera fullkomið,“ segir Jonathan á íslensku. Kannski var ég alveg að slátra tungumálinu, en hey maður þarf að vera lélegur áður en maður getur verið góður í einhverju, er það ekki. Ég væri svakalega til í að setjast að á Íslandi og búa hérna, ekki að vera einungis ferðamaður sem er hérna í smá tíma.

Hvaða leikmaður hefur verið þér fyrirmynd? Þeir sem hafa haft mest áhrif á mig sem leikmann, eru án alls vafa Peter Schmeichel. Hann er klárlega, að mínu mati, besti markmaður sem hefur verið uppi. Hann er algjört dýr á vellinum, bæði í getu og nærveru. Ég hef haft hann sem fyrirmynd mína í stíl mínum á vellinum, reyna að vera þróttmikill en hafa samt góða stjórn í kvíðvænlegum aðstæðum, eins og þegar maður er einn á móti framherja inni í teig. Ber mikla virðingu fyrir Schmeichel. Annar leikmaður sem hefur haft mikil áhrif á mig er Manuel Neuer , hann er rosalegur markmaður, mun meira í teignum heldur en á línunni. Finnst afar skemmtilegt og heillandi að prufa mig áfram í sama stíl. Þessir tveir leikmenn eru hugsanlega bestu dæmin fyrir hverslags fótbolta ég vil spila.

Hvað gerir þú annað hér á Sauðárkróki en að spila fótbolta? Hérna á Sauðárkróki er ég að vinna hjá Dodda Málara, fyrir utan æfingarnar og skylduviðveru hjá Tindastól. Starfsandinn hjá Dodda er æðislegur, frábært fólk sem ég er að vinna með sem skiptir svo miklu máli. Venjulegur dagur byrjar kl. 05:30, þá vakna ég, drekk glas af sítrónuvatni og stunda 30 mínútna jóga og teygjur. Þá leggst ég í íslensku lærdóminn áður en ég mæti í vinnuna kl. 08:00. Ég vinn yfirleitt til kl. 17:00 og fer þá yfirleitt strax á völlinn á markmannsæfingu áður en æfingar byrja kl:18:00. Eftir æfingu fer ég í ræktina til svona 20:30 og fer þá heim og elda mér fljótlegan kvöldmat. Skipulegg mig svo fyrir næsta dag og reyni að fara snemma að sofa til að vakna og gera þetta allt aftur næsta dag. Það er ekki mikill tími til þess að gera eitthvað annað en þessar daglegu venjur. Auðsjáanlega væri ég alveg til í að hafa meiri tíma til að spila t.d. á gítarinn, eyða meiri tíma með öllum, kynnast fleira fólki og skoða landið betur. En um helgar hefur maður frekar möguleika á að víkka sjóndeildarhringinn.

Hvað er það fyndnasta sem þú hefur lent í hérna á Íslandi? Fyndnasta sagan, guð minn góður, að velja eina sögu er næstum ómögulegt. Það eru svo mörg fyndin og skemmtileg augnablik sem ég hef lent í síðan ég mætti hérna fyrst árið 2017. Það fyrsta sem mér dettur í hug er þegar ég mætti á mína fyrstu æfingu hérna á Íslandi. Þá byrjuðu liðsfélagar mínir að kynna sig fyrir mér, sá fyrsti rétti fram höndina og sagðist heita Alex....já ok frábært og auðvelt nafn, ekkert mál. Sá næsti rétti fram höndina og sagðist heita Kormákur...held að fólk hafi alveg getað haldið að ég væri að fá heilablóðfall þegar hann sagði mér nafnið sitt. Einnig þegar ég smakkaði þessa yndislegu íslensku samsetningu hákarl og brennivín, einnig Opal skot....,jeminn, ég hataði ekkert áfenga drykki í þá daga en þetta var sjokk fyrir mig.  

Hvað hefur verið erfiðast við að dvelja á Íslandi? Það erfiðasta við að vera á Íslandi er að venjast veðráttunni hérna. Að vísu hef ég búið þó nokkur ár í Evrópu og það hefur hjálpað mér mikið, en ég er fæddur og uppalinn í Ástralíu og veðrið þar er ekkert í líkingu við veðrið hér.

Stutta spilið:

Uppáhalds íslenska snarlið þitt? Uppáhalds íslenska snarlið mitt er klárlega bragðarefur. Til í bragðaref alla daga vikunnar.

Lag sumarsins? Sumarlagið er klárlega Sigth of Your Soul með Dirtyphonics and Sullivan King. Þvílíkur smellur.

Skrítnasti maturinn sem þú hefur bragðað á Íslandi? Skrítnasti maturinn sem ég hef smakkað hérna á Íslandi er sennilega allar tegundirnar sem þið eigið af pipar nammi, ótrúlega skrítið nammi en ég fýla það.

Uppáhalds fótboltaliðið þitt? Uppáhalds liðið, í hreinskilni sagt þá er ég frekar lélegur fótbolta stuðningsmaður. Ég horfi alls ekki oft á fótbolta. Ég horfi mest á fótboltaleiki þar sem uppáhalds markmennirnir mínir spila, sem þýðir að ég fylgdist mikið með Manchester United til að fylgjast með goðsögninni Peter Schmeichel og Bayern München til að fylgjast með geggjaða markmanninum Manuel Neuer. Hvað get ég sagt, ég er markmaður í gegn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir