„Erfitt að vera eini útlendingurinn í liðinu“

Murielle Tiernan. AÐSEND MYND
Murielle Tiernan. AÐSEND MYND

Murielle Tiernan hefur heldur betur verið happafengur fyrir meistaraflokk kvenna hjá Tindastóli en í gegnum tíðina hefur oftar en ekki reynst erfitt að finna alvöru markaskorara fyrir liðið. Murielle er 23 ára gömul, frá Ashburn í Virginiu-ríki í Bandaríkjunum en Ashburn er í útjaðri höfuðborgarinnar, Washington. 

Foreldrar hennar eru Ed og Kathy og Eddie er bróðir hennar. Hún stundaði nám við Virginia Tech háskólann og spilaði fótbolta með knattspyrnuliði skólans. Hún hefur einnig spilað með liði Hammarby í Svíþjóð. Það er sennilega óþarfi að taka fram að markaskorarinn er framherji í liði Tindastóls.

Hvernig kom það til að þú ert að spila fótbolta á Íslandi? „Ég útskrifaðist úr framhaldsskóla fyrir rúmu ári og ákvað að nota fótboltann sem leið til að ferðast um og heimsækja nýja staði. Ég bjó í Stokkhólmi í Svíþjóð síðasta haust og spilaði eitt keppnistímabil þar en síðan fór ég heim og fór að leita að nýju liði til að spila með á nýjum stað og þá kom þetta tækifæri upp í hendurnar á mér og ég stökk á það.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? „Fámennið. Ég vissi af því þegar ég kom hingað en þetta er bara svo gjörólíkt því sem ég á að venjast. Allur bærinn [Sauðárkrókur] er álíka stór og skólinn sem ég var í.“

Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Tindastóls?  „Það er mjög fínt, allar stelpurnar eru afar vingjarnlegar! Jafnvel þó ég viti nú sjaldnast hvað er í gangi því allar umræður eru á íslensku, þá hefur þetta samt verið mjög ánægjuleg upplifun.

Hvaða væntingar hafðirðu til sumarsins á Íslandi? „Ég vildi bara upplifa eitthvað nýtt og spennandi og hafa möguleika á að sjá eins mikið af þessu fallega landi og mögulegt væri. Og að hjálpa Tindastólsliðinu eins og ég get.

Hvað hefur verið erfiðast við að dvelja á Íslandi? „Það erfiðasta hefur verið að vera eini útlendingurinn í liðinu.“

Sjá nánar í í 32. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir