Erfitt gegn Þór/KA í fyrsta leik Lengjubikarsins

Stólastúlkur að loknum síðasta leik ársins 2020. MYND: GÓGÓ
Stólastúlkur að loknum síðasta leik ársins 2020. MYND: GÓGÓ

Tindastóll heimsótti lið Þórs/KA í Bogann á Akureyri í gær en um var að ræða innbyrðisviðureign Norðurlands- liðanna sem þátt taka í Lengjubikarnum. Því miður gáfu stelpurnar Akureyringum væna forystu í byrjun leiks og lentu því í því að elta leikinn nánast frá blábyrjun. Stelpurnar lögðu þó ekki árar í bát og náðu að skora tvö mörk í leiknum en lokatölur voru 5-2.

Hulda Ósk Jónsdóttir komi liði Þórs/KA yfir á annarri mínútu og mínútu síðar bætti Karen María Sigurgeirsdóttir um betur. María Catharina Ólafsdóttir Gros var svo spiluð í gegnum vörn Tindastóls á 20. mínútu og skoraði af öryggi. Staðan 3-0 og Stólastúlkur kölluðu saman neyðarfund áður en haldið var áfram og náðu að hrista af sér minnimáttarkenndina. Murielle minnkaði muninn eftir hálftíma leik og staðan 3-1 í hálfleik. Lið Tindastóls spilaði betur í síðari hálfleik og Kristrún María gerði næsta mark leiksins á 75. mínútu – en því miður í eigið mark. Margrét Árnadóttir gerði síðan fimmta mark heimastúlkna með skoti af löngu færi en Jackie náði að laga stöðuna í uppbótartíma.

Feykir hafði samband við Guðna Þór, annan þjálfara Tindastóls, og bað um viðbrögð við leiknum. „Við byrjuðum leikinn á hælunum og góð lið eins og Þór/KA einfaldlega refsa okkur fyrir slaka byrjun. Um miðbik fyrri hálfleiks náum við að komast betur inn í leikinn og skorum gott mark og fengum auk þess ágætis færi til að minka muninn enn frekar. Við komum af krafti í seinni hálfleik og áttum mjög góðar sóknir, náðum að tengja fleiri sendingar og vörðumst mun betur en við gerðum í fyrri hálfleik. Þegar upp er staðið lærum við mikið af þessum leik.

Hvað takið þið jákvætt út úr leiknum? „Jákvæðu punktarnir eru hvernig við komum inn í seinni hálfleikinn, tengjum fleiri sendingar, náum upp meiri yfirvegun í spilið og verjumst mun betur sem lið. Þessi leikur var góður lærdómur fyrir okkur og það eru atriði sem við getum bætt okkur í og munum vinna í fyrir næsta leik gegn Stjörnunni.“ Mur fór af velli eftir 67. mínútna leik en hún er að ná sér af smávægilegum meiðslum sem hafa hrjáð hana. Hún kom ekkert við sögu í leiknum gegn Völsungi fyrir viku.

Leikurinn gegn Stjörnunni verður síðasta laugardag í febrúar en Garðbæingar töpuðu fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks 7-0 um helgina. Auk Tindastóls, Þórs/KA, Stjörnunnar og Breiðabliks eru Fylkir og FH með lið í riðli 2 í A-deild kvenna í Lengjubikarnum. Auk þess að taka þátt í Lengjubikarnum er lið Tindastóls þátttakandi í Kjarnafæðismótinu þar sem liðið hefur unnið báða leiki sína til þessa en þar hefur þurft að fresta leikjum og enn óljóst hvenær næstu leikir Tindastóls í þeirri keppni fara fram.

Leikskýrsla á vef KSÍ >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir