Eru Stólarnir rúgbrauð eða franskbrauð?

Það eru læti! Viðar og Udras í baráttunni í gær. MYND: HJALTI ÁRNA
Það eru læti! Viðar og Udras í baráttunni í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls fékk kanalausa Grindvíkinga í heimsókn í Síkið í gærkvöldi og niðurstaðan var góður sigur en lokatölurnar voru 88-81. Þrátt fyrir að Stólarnir hefðu haft yfirhöndina mest allan leikinn þá var það ekki fyrr en Jaka Brodnik skellti í sjö stiga syrpu á næst síðustu mínútu leiksins sem ljóst var að heimamenn myndu hirða stigin tvö sem í boði voru.

Leikurinn var lengstum ansi jafn en Stólarnir náðu nokkrum sinnum 12-13 stiga forskoti en náðu aldrei að hrista ólseiga gestina af sér. Það varð Stólum til happs að Grindvíkingum gekk illa að finna fjölina góðu sem þeir hafa þó of oft rambað á í Síkinu. Þeir hafa í það minnsta oft hitt betur en í gær.

Fyrstu mínútur leiksins voru gestirnir skrefinu á undan en þristur frá Tomsick jafnaði leikinn 13-13 og þristur frá Xela fæðri Stólunum 19-15 forystu inn í annan leikhluta. Þristur frá Hannesi breytti stöðunni í 22-16 og eftir 14 mínutna leik var staðan orðin 31-18 og Stólarnir í góðum gír. Daníel, þjálfari Grindavíkur, tók þá leikhlé og fljótlega var munurinn kominn niður í sex stig, 33-27. Þá kom annar góður kafli Stóla og eftir þrist frá Viðari var munurinn 13 stig á ný, 40-27, og tvær og hálf mínúta eftir af fyrri hálfleik. Þær mínútur voru hörmulegar hjá heimamönnum sem fóru illa með ágæt færi hvað eftir annað og smelltu síðan í hræódýrar óþarfavillur sem færðu gestunum vítaskot og auðveldar körfur. Staðan í hálfleik 44-40.

Grindvíkingar komust yfir í upphafi þriðja leikhluta eftir að hafa gert sex fyrstu stigin. Tomsick jafnaði, Kristinn Páls skellti í þrist og Tomsick svaraði. Þristur frá Pétri kom Stólunum í 54-51 og strákarnir náðu að búa sér til naumt foskot, yfirleitt þetta fjögur til tíu stig, og Grindvíkingar náðu aldrei að jafna. Þó að í liðinu séu þekktir 3ja stiga stuðboltar þá voru góðir kaflar Grindvíkinga stuttir að þessu sinni. Tindastólsliðið var með tíu stiga forystu að loknum þriðja leikhluta og í þeim fjórða náðu Grindvíkingar aldrei að minnka muninn niður fyrir fimm stigin. Staðan var 74-68 þegar tvær og hálf mínúta var til leiksloka en þá skellti Jaka Brodnik í rallýgírinn og setti sjö stig á einni mínútu og kláraði þar með leikinn.

Leikur Tindastóls fer batnandi og í gær var liðið með 27 stoðsendingar; þar af var Pétur með átta og Tomsick sjö. Það er jákvætt. Tomsick var auk þess stigahæstur, með ágæta skotnýtingu þó vítanýtingin hafi verið óvenjuleg á þeim bænum. Glover var með 19 stig og 12 fráköst, Brodnik skilaði 17 stigum og níu fráköstum og þá var Udras mættur til leiks á ný og gerði 10 stig og tók sjö fráköst. Pétur var með átta stig og átta stoðsendingar. Nýr leikmaður gestanna, Marshall Nelson, gerði 19 stig og næstir honum voru Ólafur (16 stig), Þorleifur bróðir hans (15) og Jarveleinen (14).

Sem fyrr er lið Tindastóls ósannfærandi og það er sennilega óhætt að fullyrða að liðið hefur enn ekki sett saman góðan leik í 40 mínútur. Það er mikilvægt að liðið finni taktinn, það eru batamerki á leik liðsins eins og áður sagði, og góðu kaflarnir þurfa að lengjast á kostnað vondu kaflanna. Það er því mikilvægt að nýta landsleikjafríið vel til að stilla strengina. Svo er óskandi að Síkið opnist stuðningsmönnum fyrr en síðar þannig að þeir geti lyft liðinu sínu pínu og komið leikmönnum upp á tábergið.

Það er nokkuð ljóst að ef stuðningsmenn Tindastóls væru þessa dagana spurðir að því hvort Stólarnir væru rúgbrauð eða franskbrauð er nokkuð ljóst hvert svarið væri. Rífum þetta í gang og áfram gakk! Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir