Fann taktinn þegar leið á kvöldið

Arnar Geir til í slaginn. MYND AF FB
Arnar Geir til í slaginn. MYND AF FB

„Mér fannst ganga vel, ég var að skora vel og leið vel með hvernig ég var að spila,“ segir Arnar Geir Hjartarson, pílukastari frá Pílukastfélagi Skagafjarðar, þegar Feykir spyr hvernig honum hafi fundist ganga hjá sér í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í pílu en hann var mættur í Bullseye sl. miðvikudagskvöld. „Ég var nokkuð stöðugur í gegnum alla leikina og náði að spila betur þegar á reyndi á móti sterkari andstæðing. Útskotin gengu ekki alveg nógu vel í byrjun, smá stress og spenna, en svo fann ég taktinn þegar leið á kvöldið,“ sagði kappinn.

Arnar Geir varð að bíta í það súra epli að detta úr leik, lenti í öðru sæti í sínum riðli og komst því ekki í undanúrslitin sem verða þegar nær dregur jólum. Hann vann fyrstu tvær viðureignirnar en varð að lúta í gras fyrir Arngrími Antoni Ólafssyni frá Pílufélagi Reykjanesbæjar.

Var mikið svekkelsi að komast ekki áfram? Auðvitað vill maður alltaf vinna en ég spilaði vel allt kvöldið og sérstaklega í úrslitaleiknum og hefði hann getað dottið öðru hvoru megin fannst mér.

Hvað heldurðu að þú sért að stunda pílu í marga klukkutíma á viku og er einhver spes undirbúningur fyrir mót eins og þetta ? Ég spila í kringum tíu tíma í hverri viku. En undirbúningurinn er ekki mikið frábrugðin öðrum mótum, kannski meira að undirbúa andlegu hliðina að spila uppi á sviði fyrir framan fullt af myndavélum og fólki.

Finnst þér mikill gæðamunur á pílukösturum í ár eða fyrra, hefur orðið algjör sprenging í ástundun íþróttarinnar? Mér finnst aðalmunurinn að það eru fleiri efnilegir og góðir spilarar að stíga upp. Afrekshópurinn er samt mjög svipaður og ekki mikið um ný andlit þar. Ég er nátturulega partur af þessum "nýju" pílukösturum sem hóf að stunda þetta fyrir stuttu síðan og kannski finn ekki eins fyrir þessari sprengingu sem orðið hefur. En tölurnar tala sínu máli og mikill fjöldi er alltaf skráður í öll mót sem haldin eru. Það er ekki mikil aukning milli 2023 og 2022 en aukningin er mikil ef litið er 5 ár aftur í tímann.

Hvað tekur nú við? Bara áframhaldandi æfingar og keppni í mótum. Það er yfirleitt allavega eitt mót á vegum íslenska Pílusambandsins í hverjum mánuði og reyni ég að taka þátt í þeim. Svo er starfið hjá Pílukastfélagi Skagafjarðar að fara í gang eftir sumarið og er ég á fullu í undirbúningi og skipulagningu þar ásamt fleirum.

Það má svo í lokin geta þess að tveir liðsmenn Pílukastfélags Skagafjarðar, þeir Jón Oddur Hjálmtýsson og Júlíus Helgi Bjarnason, kepptu í 301 tvímenningi á móti í Grindavík í gær – mekka pílunnar á Íslandi. Þeir gerðu sér lítið fyrir of höfnuðu í 3.-4. sæti á mótinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir