Flottur sigur hjá fótboltastelpunum

Tindastóls-stelpurnar glaðbeittar. MYND AF FB-SÍÐU STUÐNINGSMANNA TINDASTÓLS
Tindastóls-stelpurnar glaðbeittar. MYND AF FB-SÍÐU STUÐNINGSMANNA TINDASTÓLS

Það er talsverð eftirvænting fyrir komandi knattspyrnusumri hjá kvennaliði Tindastóls í fótboltanum en þær munu taka þátt í Inkasso-deildinni í sumar. Líkt og strákarnir þá taka stelpurnar nú þátt í Lengjubikarnum, leika þar í riðli 1 í C-deild kvenna, og þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu sameinað lið Aftureldingar/Fram í sínum fyrsta leik í gær. Lokatölur 1-3.

Leikið var á gervigrasi á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Það var Guðrún Jenný Ágústsdóttir sem gerði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu og hún bætti síðan við marki á markamínútunni og staðan 0-2 í hálfleik. María Dögg Jóhannesdóttir gerði síðan þriðja mark Tindastóls þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka. Hafrún Halldórsdóttir setti smá spennu í leikinn með því að minnka muninn fjórum mínútum síðar  en fleiri urðu mörkin ekki.

Lið Tindastól spilar tvo leiki hér heima í Lengjubikarnum en alls spilar liðið fjóra leiki í riðlinum. Næsti leikur er einmitt á Króknum en hann verður spilarður 31. mars.

Skallagrímur - Tindastóll 2-1

Daginn áður mættu strákarnir 3. deildar liði Skallagríms í Akraneshöllinni í þriðja leik sínum í Lengjubikarnum. Ekki reyndist það ferð til fjár en Borgnesingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Konna-lausa Tindastólsmenn 2-1. 

Elvar Óli Marinósson stóð í marki Tindastóls í fjarveru Ástralans sem var fjarri góðu gamni að þessu sinni.  Sigurjón Guðmundsson kom Sköllunum yfir eftir um stundarfjórðung og staðan 1-0 í hálfleik. Jón Grétar Guðmundsson varð fyrir því óláni að skora í eigið mark á 65. mínútu en það var síðan Jónas Aron Ólafsson sem lagfærði stöðuna fyrir Stólana með marki í uppbótartíma. Lið Tindastóls var ekki á spari-takka-skónum að þessu og áttu ekki mikið skilið úr leiknum.

Næsti leikur Tindastóls verður á gervigrasinu á Króknum 23. mars en þá mæta grannar okkar úr Fjallabyggð til leiks. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir