Frábær árangur hjá 4. Flokki kvenna á Rey Cup

Framtíðin er björt hjá Tindastól
Framtíðin er björt hjá Tindastól

Stelpurnar í 4. flokki kvenna stóðu sig frábærlega þegar þær lentu í öðru sæti í keppni B-liða á Rey Cup. Mótið var haldið daganna 24. til 28. júlí. Þróttur Reykjavík stendur fyrir þessu móti og hafa erlend lið keppt á mótinu sjálfu.

Stelpurnar fóru taplausar upp úr riðlinum. Fyrsti leikurinn hjá stelpunum var á móti Þrótti B2 og byrjuðu stelpurnar af krafti og unnu þann leik 8-0. Leikur tvö var á móti Álftanesi og var hann erfiðari en sá leikur endaði með markalausu jafntefli. Síðasti leikurinn í riðlinum var á móti Grindavík og vannst hann 2-1.

Í átta liða úrslitunum mættu þær sameiginlegu liði Fjarðabyggðar og Hattar. Leikurinn endaði með sigri Tindastóls og liðið komið í undanúrslit. Í undanúrslitunum mættu þær HK leikurinn endaði 1-1 og því þurfti að fara í vítaspyrnukeppni. Tindastóll byrjaði vítaspyrnukeppnina og skoruðu þær úr fyrstu spyrnu. Fyrsta spyrnan hjá HK endaði í stönginni og staðan 1-0 eftir fyrstu umferðina í vítaspyrnukeppninni. Tindastóll skoraði líka úr spyrnu tvö og var mikill spenna þegar HK tók sína aðra spyrnu. Boltinn var varinn og Tindastólsstelpur komnar í úrslitaleikinn.

Andstæðingar Tindastóls í úrslitaleiknum var Valur. Leikurinn var virkilega erfiður og var Valur með yfirhöndina í leiknum. Stelpurnar börðust og vörðust virkilega vel en Valur náði að uppskera eitt mark sem var sigurmarkið í leiknum.

Stelpurnar tóku silfrið en þær stóðu sig virkilega vel og geta stuðningsmenn Tindastóls verið stolt af stelpunum. Framtíðin er björt hjá þessum ungu stelpum og þarf núna að passa vel upp á þær svo þetta splundrist ekki eins og hefur gerst hjá sumum efnilegum flokkum.

Feykir óskar stelpunum og þjálfara þeirra Vilborgu Hrefnu Sæmundsdóttur innilega til hamingju með frammistöðuna.   

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir