Framfarir hjá Stólastúlkum en tap gegn ÍR staðreynd

Eva Wium á fullri ferð gegn ÍR-ingum. MYND: HJALTI ÁRNA
Eva Wium á fullri ferð gegn ÍR-ingum. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og ÍR mættust í Síkinu í gær í 1. deild kvenna í körfubolta. ÍR hafði fyrir skömmu síðan unnið Stólastúlkur með næstum því helmingsmun en nú mætti lið Tindastóls ákveðið til leiks og þrátt fyrir að í liðið vantaði bæði Marín Lind og Ingu Sólveigu þá varð leikurinn hörkuspennandi. Eftir að hafa verið yfir í hálfleik þá varð þriðji leikhlutinn heimastúlkum að falli að þessu sinni og ÍR fór heim með stigin tvö. Lokatölur 53-69.

Lið ÍR fór betur af stað í leiknum og komst í 2-6 en þá kom flottur 14-2 kafli hjá Stólastúlkum sem voru síðan yfir að loknum fyrsta leihluta, 18-11. Breiðhyltingar komu ákveðnir til leiks i öðrum leikhluta og þær héldu aftur af liði Tindastóls í vörninni. ÍR gerði fyrstu tíu stig leikhlutans en það voru næstum liðnar sex mínútur þegar Telma Ösp gerði fyrstu stig Tindastóls í fjórðungnum og í framhaldinu komust heimastúlkur á ný inn í leikinn, víti frá Evu Wium og karfa frá Berglindi sáu til þess að Tindastólsliðið var með tveggja stiga forystu í hálfleik. Staðan 27-25.

Svo kom annar slæmur kafli og nú áttu Stólastúlkur engin svör við leik ÍR sem vann þriðja leikhluta 9-27 og þrátt fyrir hörkubaráttu í fjórða leikhluta þá tókst liði Tindastóls ekki að brúa bilið. Niðurstaðan 16 stiga tap en engu að síður mikil framför frá fyrri leiknum. Eva Wium var stigahæst í liði Tindastóls með 23 stig en þær Eva Rún og Linda Þórdís, sem var að spila sinn síðasta leik að sinni, gerðu átta stig. Linda tók sjö fráköst líkt og Karen Lind sem gerði sex stig líkt og Telma Ösp.

„Við sýndum hvað við getum í fyrri hálfleik“

Feykir spurði Árna Eggert, þjálfara Tindastóls, hvað honum fannst um leikinn „Þetta var hörkuleikur og við sýndum hvað við getum í fyrri hálfleik þar sem við vorum að yfirspila þær án þess að vera að spila okkar besta leik. Svo misstum við kraftinn aðeins niður í þriðja leikhluta og misstum sjónar á skyttunum þeirra. Þær bjuggu þarna til forskot sem við náðum ekki að vinna niður þegar við náðum okkur aftur á strik,“ sagði Árni. „Við spiluðum við þær fyrir mánuði síðan og sá leikur var hreinlega vandræðalegur fyrir okkur. Það var hinsvegar allt annað í gangi núna og meirihluta leiksins fannst mér við vera betra liðið á vellinum. Nú er bara að halda áfram að vaxa.“

Feykir spurði Árna einnig út í leikmannamál og sagði hann að bæði Marín og Inga hefðu verið í prófi og misstu af leiknum þess vegna. „Linda ákvað að framlengja dvöl sína hjá okkur og óþarfi að tala um hvað það styrkir liðið að fá svona reynslubolta inn. Hún er hinsvegar að fara út á mánudaginn og þetta því hennar seinasti leikur með okkur í bili.“

Næsti leikur Tindastóls er í Njarðvík næstkomandi laugardag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir