Fyrsta tap Stólastúlkna síðan í október

Eva Rún með boltann.
Eva Rún með boltann.

Keppni í 1. deild kvenna í körfunni harðnar enn og baráttan á toppnum stefnir í eitthvað sögulegt. Í kvöld lék lið Tindastóls við Ármann í Laugardalshöllinni en liðin eru bæði í bullandi séns með sæti í Subway-deildinni næsta haust. Stólastúlkur höfðu ekki tapað leik í deildinni síðan 15. október en í kvöld reyndust heimastúlkur sterkari á lokakaflanum og hirtu stigin sem í boði voru. Lokatölur 71-64.

Gestirnir að norðan fóru vel af stað og gerðu níu fyrstu stig leiksins. Lið Ármanns er með öflugan mannskap og hafa daðrað við sæti í efstu deild síðustu vetur og þær komu snöggt til baka, jöfnuðu 12-12 og voru síðan yfir, 22-16, að loknum fyrsta leikhluta. Þær héldu frumkvæðinu framan af öðrum leikhluta en Kasapi minnkaði muninn í eitt stig þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks og Eva Rún jafnaði metin, 35-35, með sjaldgæfum þristi. Staðan 39-37 í hálfleik.

Okoro kom liði Tindastóls yfir um miðjan þriðja leikhluta, 45-46, hún bætti svo við einu stigi af vítalínunni og Birna skellti í þrist og staðan 45-50. Síðan var bara stál í stál út leikhlutann en Elfa Falsdóttir átti síðasta orðið, þrist, og lið Ármanns með eins stigs forystu fyrir lokahnikkinn, staðan 55-54. Byrjun fjórða leikhluta lofaði góðu fyrir gestina, Emese gerði fjögur stig og Okoro tvö, staðan 55-60 og tæpar átta mínútur til leiksloka. Þá sögðu stúlkur Ármanns – hingað og ekki lengra – og eftir þetta gerðu Stólastúlkur aðeins fjögur stig á meðan andstæðingurinn gerði 16.

Helsti munurinn á liðunum var að heimastúlkur tóku 48 fráköst gegn 40 og settu heldur fleiri þrista niður þó hittni beggja liða hafi verið slök utan þeirrar töfralínu. Stólastúlkur gerðu þrjár 3ja stiga körfur í 25 tilraunum en heimaliðið sjö í 29 tilraunum. Okoro var stigahæst með 21 stig í liði Tindastóls og hún hirti níu fráköst, Emese Vida gerði 14 stig og tók 12 fráköst, Kasapi var með 13 stig, Birna Líf níu og Eva fimm stig.

KR og Ármann eru nú efst í 1. deildinni með 16 stig að loknum ellefu leikjum en Aþena og Tindastóll eru bæði með 14 stig en hafa spilað leik minna. Það er því allt í klessu á toppnum!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir