Fyrstu stig Stólastúlkna komin í hús eftir sigur á ÍR

Stólastúlkur verjast innkasti ÍR-inga. MYND: ÓAB
Stólastúlkur verjast innkasti ÍR-inga. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og ÍR mættust í Síkinu í dag í 1. deild kvenna. Bæði lið voru án sigurs það sem af var móti og baráttan var í algleymingi í leiknum en körfuboltinn var sjaldnast fagur á að horfa að þessu sinni. Lið Tindastóls var sterkari aðilinn og frábær vörn í þriðja leikhluta varð til þess að lið ÍR átti lítinn séns á sigri og fór svo að Stólastúlkur fögnuðu sætum sigri. Lokatölur 61-49.

Gestirnir úr Breiðholti fóru betur af stað í dag og höfðu undirtökin framan af fyrsta leikhluta. Lið Tindastóls var veikt undir körfunni og hvað eftir annað tóku ÍR-stúlkurnar, sem höfðu raunar hæðina fram yfir heimaliðið, boltann hreinlega úr höndunum á heimastúlkum og fengu því fleiri tækifæri til að skora. Sem betur fer voru gæðin í liði ÍR-inga ekki nógu mikil til að nýta sér almennilega veika vörn Stólanna þannig að loks þegar heimastelpurnar þéttu vörnina og fóru að stíga betur út í frákastabaráttunni þá voru þær ekki lengi að jafna leikinn. Lið ÍR komst í 6-12 en stelpurnar jöfnuðu sem fyrr segir, 12-12, og þristur frá Alexöndru og tvö stig frá Tess Williams sáu til þess að staðan að loknum fyrsta leikhluta var 17-13. Annar leikhluti var nokkuð kaflaskiptur en áfram var varnarleikurinn í öndvegi og liðunum gekk illa að setja boltann í körfuna. Stólastúlkur byrjuðu leikhlutann betur, komust í 27-16 eftir tæplega fimm mínútna leik en eftir það gekk lítið sem ekkert fram að hléi. Lið ÍR tókst með góðri baráttu að minnka muninn í fjögur stig fyrir hlé en þá var staðan 29-25.

Lið Tindastóls náði upp frábærri vörn í þriðja leikhluta og lið ÍR komst hvorki lönd né strönd, þær hlupu hreinlega á varnarvegg Stólastúlkna og misstu boltann ítrekað. Góð vörn skilaði heimastúlkum nokkrum þægilegum körfum og þær gerðu 19 stig í leikhlutanum á meðan gestirnir gerðu aðeins sex og 17 stiga munur á liðunum fyrir lokafjórðunginn. Staðan 48-31. Arnoldas, þjálfari Tindastóls, nýtti tækifærið og gaf öllum leikmönnum Tindastóls góðan tíma á vellinum. Dúfa Ásbjarnar kom muninum í 20 stig þegar rúmar sjö mínútur voru eftir af leiknum en eftir það hófu gestirnir að klóra í bakkann en voru aldrei nálægt því að ógna sigri Tindastóls – Tess sá til þess með nokkrum fínum körfum.

Tess Williams var að vanda allt í öllu í liði Tindastóls og lék nánast allan leikinn. Hún var stigahæst með 26 stig, hún tók 10 fráköst, átti fimm stoðsendingar og stal fjórum boltum. Þóranna Ósk, Rakel Rós og Kristín Halla spiluðu allar um 25 mínútur í leiknum en voru ekki afgerandi í stigaskorinu. Marín Lind skilaði ellefu stigum á 16 mínútum en hún er afar áræðin og ófeimin við körfuna. Þá átti Eva Rún fínan leik og skilaði sex stigum á 13 mínútum. Í liði ÍR var Jóhanna Sævarsdóttir atkvæðamest með 15 stig og níu fráköst. Bæði lið voru ísköld utan 3ja stiga línunnar og settu alls niður fimm skot í 32 tilraunum. 

Tölfræði á vef KKÍ >

Í nóvember spila stelpurnar fyrst tvo útileiki gegn Njarðvík og Þór Akureyri en síðan kemur lið Fjölnis í heimsókn í Síkið 24. nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir