Geiger gengur til liðs við Stólana

Geiger lengst til hægri númer 8. MYND AF NETINU
Geiger lengst til hægri númer 8. MYND AF NETINU

Nú tíðkast hin breiðu spjótin og á það ekki hvað síst við í Dominos-deildinni í körfubolta. Flest sterkari liða deildarinnar hafa nýtt jólafríið til að sanka að sér leikmönnum til að styrkja sig í baráttunni sem framundan er. Sagt er frá því í stuttri frétt á Fésbókarsíðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls að þar á bæ hafi menn ákveðið að styrkja meistaraflokk karla með því að semja við Deremy Terrel Geiger um að spila með liðinu á nýju ári.

Hann ku þegar mættur á Krókinn og klár í slaginn. Kappinn er 180 sm á hæð, eldsnöggur og getur leyst stöðu leikstjórnanda og skotbakvörðs. Karfan.is segir að Geiger sé 29 ára gamall og reynslumikill en hann hefur leikið í Slóvakíu, Tékklandi, Finnlandi og Frakklandi en áður hafði hann leikið með Idaho í bandaríska háskólaboltanum.

Geiger er gjaldgengur með liði Tindastóls í fyrsta leik á nýju ári en hann verður gegn liði Keflavíkur þann 6. janúar og verður leikið í Sláturhúsinu. Nú er bara að vona að kappinn falli vel inni í leik Stólanna og komi sterkur til leiks.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir