Glötuð byrjun reyndist Stólastúlkum dýrkeypt

Emese Vida var með 29 stig og 20 fráköst í Hveragerði en það dugði ekki til í þetta skiptið. MYND: DAVÍÐ MÁR
Emese Vida var með 29 stig og 20 fráköst í Hveragerði en það dugði ekki til í þetta skiptið. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það mátti reikna með spennuleik þegar Stólastúlkur heimsóttu Hveragerði þar sem sameinað lið Hamars/Þórs beið eftir þeim. Leikurinn var mikilvægur báðum liðum, fyrir Tindastólsliðið í spennunni á toppnum en með sigri hefðu heimastúlkur náð að blanda sér í toppbaráttuna. Afleit byrjun í leiknum þýddi að Stólastúlkur voru allan leikinn að grafa sig upp úr þeirri holu en þrátt fyrir það voru þær hársbreidd frá því að ná í sigur. Tap þó staðreynd, lokatölur 80-76.

Það var nú ekki ljóst í hvað stefndi á fyrstu mínútunum. Heimastúlkur höfðu þó yfirhöndina frá byrjun og voru yfir 9-6 að loknum tveimur og hálfri mínútu. Þá kom hins vegar 16-0 kafli og heimastúlkur leiddu 30-8 að loknum fyrsta leikhluta. Það gekk hægt að brúa bilið í öðrum leikhluta og lið Hamars/Þórs var þá yfir, 45-29.

Hart var barist í þriðja leikhluta en að honum loknum munaði tíu stigum, staðan 61-51 og tíu stiga munur sagði manni að það væri von. Stólastúlkur minnkuðu muninn í sex stig fyrir miðjan fjórða leikhluta en heimastúlkur svöruðu og voru yfir 74-61 þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka. Gestirnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í fjögur stig, 74-70, heimastúlkur bættu tveimur stigum á töfluna en Emese Vida skellti í þrist og minnkaði bilið í þrjú stig. Thomas setti eitt víti fyrir H/Þ en Klara Sólveig minnkaði muninn í eitt stig með þristi og 22 sekúndur voru eftir. Óíþóttamannsleg villa sem Okoro fékk á sig skömmu síðar reyndir vendipunktur og heimastúlkur fögnuðu sigri.

Emese Vida átti frábæran leik fyrir Stólastúlkur, gerði 29 stig og hirti 20 fráköst en hún gerði þrjár 3ja stiga körfur í þremur tilraunum. Okoro var með 22 stig en aðrar minna. Lið Tindastóls er nú í fjórða sæti 1. deildar með 16 stig en þrjú lið eru efst og jöfn með 18 stig. Ef stelpurnar ætla sér upp í Subway-deildina þá má ekki misstíga sig oft á lokakafla mótsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir