Góður árangur á Norðurlandamóti í Álaborg

Hópurinn MYND AÐSEND
Hópurinn MYND AÐSEND

Um síðustu helgi tóku fjórir keppendur frá Skotfélaginu Markviss þátt fyrir hönd Íslands á Norðurlandamóti í haglagreininni Norrænt Trapp (Nordisk Trap) sem fram fór á skotsvæði eins skotfélaganna í Álaborg (Aalborg flugtskydningsforening). Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingum er boðið að taka þátt í þessu móti en auk íslands mættu Færeyingar einnig til keppni, ásamt Norðmönnum, Svíum og Dönum.

Um er að ræða árlegt mót sem hingað til hefur verið keppni milli Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, en Nordisk trap er stærsta haglagreinin í Skandinavíu. Sem dæmi má taka þá halda Norðmenn fjögur úrtökumót til að velja sína 25 keppendur úr rúmlega 400 keppendahópi.

Keppt er í karla, kvenna og unglingaflokkum, auk V50 (50-60 ára) og V60 (60 ára og eldri). Keppendur að þessu sinni voru 90 talsins. Keppendur Íslands í þessari frumraun voru Guðmann Jónasson, Snjólaug M.Jónsdóttir (liðstjóri), Elyass Kristinn Bouanba og Haraldur Holti Líndal, en þeir tveir síðastnefndu kepptu í unglingaflokki. Aðstæður og öll umgjörð var til fyrirmyndar hjá frændum vorum Dönum.

Árangur íslensku keppendanna var framar björtustu vonum en unglingarnir tvíbættu Íslandsmet í sínum flokki, Elyass Kristinn skaut 108 dúfur og bætti Íslandsmet Haraldar Holtasem sett var hér á Blönduósi í sumar um eina dúfu. Haraldur sem var í seinni riðli skaut svo 123 dúfur og náði metinu á nýjan leik. Guðmann skaut 130 dúfur sem er þriðja hæsta skor sem Íslendingur hefur náð í greininni hingað til og Snjólaug endaði á fínu skori eða120 dúfum sem er aðeins 5 dúfum frá hennar besta skori.

Uppgangur Nordisk Trap íþróttarinnar hjá Skotfélaginu Markviss undanfarin ár hefur ekki farið framhjá nágrannaþjóðum okkar og lýstu margir keppendur yfir miklum áhuga á að sækja okkur heim á komandi árum, hvort sem væri til æfinga eða keppni hér á skotsvæði Markviss.

Umfjöllun frá Markviss, af huni.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir