Góður útisigur hjá K/H

Liðsmynd af leikmönnum K/H fyrir leikinn.
Liðsmynd af leikmönnum K/H fyrir leikinn.

Laugardaginn 13. júlí klukkan 16:00 mættust KM og Kormákur/Hvöt (K/H) á KR-velli í 4. deild karla. Fyrir leikinn var K/H í þriðja sæti með sautján stig en KM í því sjöunda með sex stig. K/H átti leikinn frá upphafi til enda og unnu leikinn sannfærandi 6-0.

Fyrsta mark leiksins kom á sautjándu mínútu leiksins þegar Óskar Smári kom með nákvæma sendingu til Diego Moreno Minguez sem skoraði snyrtilega. Á 29. mínútu leiksins kom annað markið eftir aukaspyrnu frá Sergio sem náði að senda boltann beint í hlaupalínu Bjarka Más sem stangaði boltann inn. Fimm mínútum síðar áttu K/H gott spil upp völlinn sem endaði með fyrirgjöf sem var of löng og alveg að fara útaf en Óskar Smári náði boltanum og kom með boltann aftur fyrir á Diego sem kláraði færið vel. Þegar dómarinn var að fara flauta til hálfleiks fékk Viktor Ingi fasta sendingu á sig rétt utan við vítateig, Viktor tók glæsilega á móti boltanum og náði góðri snertingu á milli tveggja varnarmanna og þrumaði boltanum svo í bláhornið. Staðan 4-0 í hálfleik fyrir K/H.

Menn voru aðeins slakari í markaskorun í þeim síðari en fimmta markið kom á 87. mínútu þar var á ferðinni Hilmar Þór Kárason sem fékk góða stungusendingu inn fyrir vörnina og náði hann að klára færið af yfirvegun. Þremur mínútum síðar eða á 90. mínútu fékk Dominguez Requena sendingu á miðjunni og fór hann af stað með boltann en enginn varnarmaður KM hafði áhuga að mæta honum þannig að hann lét bara vaða af 25 metrunum og boltinn söng í netinu. Lokaúrslit 6-0 sigur K/H.

K/H er aðeins fimm stigum frá toppsætinu og tveimur stigum frá öðru sætinu. Næsti leikur hjá K/H er á laugardaginn á móti Afríku og verður leikurinn spilaður á Blönduósvelli klukkan 16:00.

/EÍG     

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir