Guðjón Baldur og Inga Jóna unnu í Borgarnesi

Skagfirðingamótið í golfi fór fram í Borgarnesi um síðustu helgi. Hátt í 80 kylfingar, jafnt sunnan sem norðan heiðar, mættu til leiks í blíðskaparveðri. Um punktakeppni er að ræða og flesta punkta í karlaflokki fékk Guðjón Baldur Gunnarsson (Gunna bakara og Sólrúnar Steindórs), eða 39 stykki, og fremst í kvennaflokki varð Fljótakonan Inga Jóna Stefánsdóttir með 34 punkta. Guðjón fór glæsilegan Hamarsvöllinn einnig á fæstum höggum, 73, eða tveimur yfir pari vallarins.

Skagfirðingamótið fagnaði 20 ára afmæli að þessu sinni og var hið glæsilegasta. Fyrsta mótið var haldið á Nesvelli á Seltjarnarnesi árið 1998. Síðan þá hefur verið leikið á nokkrum völlum sunnan heiðar, en í Borgarnesi hefur mótið verið haldið mörg undanfarin ár. Ekki stendur til að breyta því, enda aðstaðan við Hótel Hamar með því besta sem þekkist hér á landi. Hefur laugardagurinn 24. ágúst 2019 þegar verið bókaður af mótsnefnd.

Í næstu sætum í karlaflokki komu Kristinn Viðar Sveinbjörnsson (systursonur Gunna P), Garðar Jóhannsson (tengdasonur Ragga Marteins og fv. atvinnumaður í knattspyrnu),og séra Hjálmar Jónsson, sem hefur verið sjóðheitur í golfinu í sumar. Unnið fjögur mót, hreppt silfur í einu og farið holu í höggi, öðru sinni á tíu ára ferli. Geri aðrir betur!

Í kvennaflokki röðuðu GSS-konur af Hlíðarenda sér í næstu sæti á eftir Ingu Jónu, sem er í GR. Sólborg Björg Hermundsdóttir varð í öðru sæti, Ingileif Oddsdóttir, rektor FNV, í þriðja sæti, Ingibjörg Ólöf Guðjónsdóttir Ingimundar í fjórða sæti og systir Sólborgar, Dagbjört Rós Hermundsdóttir, varð í fimmta sæti.

Að vanda voru veitt ýmis aukaverðlaun, bæði í karla- og kvennaflokki. Næst holu á 2. braut voru Guðrún Björg Guðmundsdóttir og Haffi Begga. Haffi var einnig næstur holu á 8. braut, og Ella Sigga hjá konunum. Á 6. braut voru Ingileif rektor og Hallgrímur Rögnvaldsson næst holunni. Arndís Berndsen og Raggi Marteins fengu nándarverðlaun á 12. braut og á 18. braut voru Ingibjörg Stefánsdóttir Árnasonar og Sæi Steingríms næst holu.

Lengsta upphafshögg kvenna á 1. braut átti Sólborg Hermunds og Halldór Heiðar Halldórs og Ólu sló lengst meðal karla.

Einnig fékk punktahæsta parið sérstök verðlaun, þau Imba Guðjóns og Bjössi, en þar var keppnin hnífjöfn og þurfti að kalla til fremstu talnaspekinga Borgarfjarðar til að finna fremsta parið.

Mótsnefndin vill koma á framfæri þökkum til keppenda fyrir að mæta og sérstakar þakkir fá þeir fjölmörgu styrktaraðilar sem lögðu til verðlaun.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir