Hefur Guð ekkert brýnna að gera?

Það er ekki alltaf gaman í golfinu og stundum virðist Guð víðs fjarri. MYND AF NETINU
Það er ekki alltaf gaman í golfinu og stundum virðist Guð víðs fjarri. MYND AF NETINU

Aðeins hefur verið rætt og ritað um heppnisskot og/eða hæfileika séra Hjálmars Jónssonar á grænum golfgrundum landsins. Feykir sagði frá því fyrr í vikunni að sérann væri nú þrisvar sinnum búinn að fara holu í höggi, sem þykja nú vanalega töluverð tíðindi í golfheimum. Þó svo að það að fara holu í höggi sé kannski algengara en margan grunar þá eru örugglega einhverjir, jafnvel fjölmargir, kylfingar sem hafa beðið Guð að hjálpa sér við þessi afreksverk í gegnum tíðina en ekki verið bænheyrðir.  

Það hefur því kannski aðeins örlað á því að ýmsa gruni að séra Hjálmar sé að fá meiri hjálp frá almættinu en hinn almenni golfari. Að sjálfsögðu hafa menn sett saman vísur af minna tilefni. Snillingurinn og þjóðskáldið Þórarinn Eldjárn setti þessa saman og birti á Facebook-síðu sinni:

     Margt er hér að skýra og úr að skera.
     Skulu þar um bálkar ortir vera - (sálmar),
     að ekkert brýnna hafi guð að gera
     en golfkúlum að dúndra fyrir séra - (Hjálmar)?

Að sjálfsögðu hafði séra Hjálmar gaman að þessu og smellti þessari vísu á vegginn sinn:

     Þótt ég setji met af meti
     mér er það sigur hálfur
     enginn trúir því að ég geti
     eitthvað í golfi sjálfur.

Þá er líka gaman að láta eina flotta fylgja frá Gunna Rögg á Löngumýri.

     Mörgu svarar magnast trú
     manns er ákaft biður.
     Í einu höggi Hjálmar nú
     holar öllu niður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir