Hundrað stig í hausinn í Röstinni

Það mæðir mikið á Israel Martin þessa dagana en Tindastólsmenn þurfa að finna taktinn fyrr en síðar. MYND: HJALTI ÁRNA
Það mæðir mikið á Israel Martin þessa dagana en Tindastólsmenn þurfa að finna taktinn fyrr en síðar. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn spiluðu við lið Grindavíkur í gærkvöldi og þurftu að rífa sig upp eftir sálarsvekkjandi skell gegn KR í Síkinu sl. fimmtudagskvöld. Leikurinn var lifandi og fjörugur og leiddu Stólarnir lengstum en þeim tókst aldrei að hrista baráttuglaða gestgjafana af sér. Það voru síðan Grindvíkingar sem höfðu betur í fjórða leikhluta og lögðu lánlausa Stóla í Rastarparket. Lokatölur 100-96.

Grindvíkingar höfðu losað sig við Bamba, franskan leikmann sinn, fyrir leikinn og virtist það þjappa liðinu vel saman og gamla góða Grindavíkurseiglan virtist komin á sinn stað á ný. Það var Skagfirðingurinn Sigtryggur Arnar sem hóf leik á þristi og heimamenn voru sterkari á upphafsmínútum leiksins. Brynjar dúkkaði upp með þrist og kom liði Tindastóls yfir, 11-12, og síðan skiptust liðin á um að hafa forystuna en staðan þegar annar leikhluti hófst var 24-26 fyrir Tindastól eftir að Urald gerði lokastigin, en hann byrjaði leikinn prýðilega. Stólarnir sigu fram úr í öðrum leikhluta og Urald kom Stólunum níu stigum yfir, 31-40, en heimamenn lögðu ekki árar í bát og sóttu að Stólunum og tveir þristar frá Jordy Kuiper og Arnari jöfnuðu leikinn 42-42 þegar mínúta var eftir. Skömmu síðar komust Grindvíkingar stigi yfir en Danero átti þó síðasta orðið í fyrri hálfleik og lið Tindastóls leiddi í hálfleik 43-44. 

Stólarnir héldu naumri forystu framan af þriðja leikhluta en Grindvíkingar jöfnuðu og komust yfir um leikhlutann miðjan en leikurinn gjörsamlega hnífjafn. Lítið fór fyrir vörnum liðanna á þessum tíma og endaði leikhlutinn 31-31 og Stólarnir því enn stigi yfir þegar fjórði leikhluti hófst, 74-75, eftir frábæran þrist frá Viðari. Hart var barist í fjórða leikhluta. Brynjar kom Stólunum yfir, 79-82, með þristi en tvistur frá Óla Óla og þristur frá Sigtryggi Arnari, sem reyndist sínum gömlu félögum erfiður í gærkvöldi, kom heimamönnum yfir. Lewis Clinch bætti um betur, staðan 86-82, en Dino og Axel settu þá báðir niður þrista og komu Stólunum yfir. Þetta virtist ætla að verða leikur þar sem liðið sem átti síðasta áhlaupið færi með sigur af hólmi. Sú varð raunin en það voru því miður Grindvíkingar sem reyndust eiga betri lokakafla. Þeir náðu fimm stiga forystu, 96-91, þegar mínúta var eftir og létu forystuna ekki af hendi þrátt fyrir að lið Tindastóls gerði heiðarlega tilraun til að jafna. Lokatölur 100-96.

Tölfræði af vef KKÍ >

Leikur Tindastóls var ágætur í fyrri hálfleik en varnarleikur liðsins í síðari hálfleik var ekki í lagi. Liðið fékk þá á sig 57 stig og það er ekki boðlegt hjá liði sem státar sig af því að spila hörkuvörn. Brynjar Þór endaði stigahæstur Tindastólsmanna með 19 stig. Pétur átti ágætan leik með 12 stig og 10 stoðsendingar. Urald, var með 17 stig, en var heillum horfinn í síðari hálfleik en þá gerði kappinn aðeins tvö stig. Hann hirti aðeins níu fráköst í leiknum. Danero gerði 16 stig og Ojo og Butorac voru báðir með 13 stig. Í liði Grindavíkur voru Lewis Clinch Jr. (28 stig) og Sigtryggur Arnar (22 stig) atkvæðamestir en í heildina spiluðu heimamenn vel.

Efiðleikar Stólanna á nýju ári halda því áfram en liðið hefur tapað fjórum leikjum í deildinni og einum í bikar, unnið einn leik með eins stigs mun og annan í framlengingu. Í hreinskiptnu viðtali við Karfan.is eftir leikinn segir Brynjar Þór Björnsson að það sé margt sem þurfi að laga hjá Tindastólsliðinu og það sé eins og liðið hafi nú misst allt sem var búið að byggja upp fyrir jól. „Dýptin í sóknarleiknum, traust á milli manna, auðveld skot, góð vörn – þetta er allt farið ... núna erum við bara að berjast um fjórða til fimmta sætið ... auðveldu körfurnar okkar eru fáar og við erum að hafa rosalega mikið fyrir öllu sem við gerum á vellinum,“ segir Brynjar meðal annars í viðtalinu sem má sjá hér >  

Klárlega mikið til í þessu hjá Brynjari en glöggir menn hafa bent á að lið Tindastóls sé að fá á sig 87,2 stig að meðaltali í leik nú eftir áramót en fékk á sig að meðaltali 71,8 stig í leikjunum fyrir áramót. Þá væri rökrétt að álykta að sá ákafi og góði varnarleikur sem Stólarnir spiluðu fyrir áramót hafi ekki verið til staðar eftir jólafríið en það er nokkuð fjallgrimm vissa fyrir því að góður varnarleikur gefur oft auðveld stig. Það er klárlega ekki slæmt að skora 96 stig gegn liði Grindavíkur en ekki líklegt til árangurs að fá á sig 100 stig. Það er því nokkuð ljóst hvar Stólarnir þurfa að laga leik sinn en hvort það næst er önnur Ella.

Israel Martin segir í spjalli á Vísir.is að maður á mann vörn Stólanna hafi ekki verið til staðar í leiknum en liðið hafi sýnt það í leiknum gegn Njarðvík að það getur spilað hörkuvörn. „Ég er mjög bjartsýnn varðandi framtíð þessa liðs. Við eigum eftir að passa vel saman og vera klárir þegar mikilvægu augnablikin koma,“ segir Martin sem er sömuleiðis spenntur fyrir Michael Ojo, nýjum leikmanni Stólanna, sem hann segir að hafi svipaða kosti og Pétur. „Við trúm því að við höfum fundið rétta manninn fyrir okkur.“

Lið Tindastóls er nú í þriðja sæti Dominos-deildarinnar en gæti verið komið niður í fjórða sæti eftir leik KR og Njarðvíkur í kvöld. Enn er þó allt hnífjafnt á toppi deildarinnar og allt getur gerst. Næsti leikur er enn einn risaslagurinn því lið Stjörnunnar mætir í Síkið á fimmtudaginn en þeir Garðbæingar hafa verið að spila liða best síðustu vikurnar. Nú er bara að sjá hvort að Stólarnir ná að finna varnartaktinn á ný og standi í lappirnar gegn Stjörnunni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir