Húnvetningar enn í góðum málum þrátt fyrir tap

Koma svo! MYND: JÓN ÍVAR
Koma svo! MYND: JÓN ÍVAR

Bleiki valtarinn fór ekki í gang í Malbikunarstöðinni að Varmá í dag. Lið Kormáks/Hvatar missteig sig því aðeins í toppbaráttu 3. deildar en þeir sóttu Hvíta riddarann heim í Mosfellsbæ og tembdust við að koma boltanum í markið fyrir framan 50 áhorfendur en allt kom fyrir ekki. Heimamenn gerðu eina mark leiksins en það var lán í óláni að lið Víðis í Garði, sem var í þriðja sæti deildarinnar, tapaði á sama tíma fyrir Árbæingum sem stukku þá upp fyrir Víði.

Lið Hvíta riddarans var í tíunda sæti deildarinnar fyrir leik og hefðu því margir veðjað á útisigur Húnvetninga í dag, enda liðið í öðru sæti með ágætt forskot á liðin fyrir neðan. Eina mark leiksins leit dagsins ljóst á 27. mínútu en þar var Alexander Aron Davorsson að verki. Staðan því 1-0 í hálfleik og aldrei þessu vant tókst gestunum ekki að skora.

Kormákur/Hvöt er þó enn í öðru sæti með 32 stig, nú með fimm stiga forskot á lið Árbæjar og sex stig á Víði. Nú á miðvikudag eiga Húnvetningar heimaleik á Blönduósi en andstæðingurinn er botnlið Ýmis. Sunnudaginn á eftir verður enn og aftur spilað á Blönduósi en þá mæta Skagamennirnir í Kára til leiks. Það vill enginn missa af þeim leik. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir