ÍR liðið áfram taplaust eftir öruggan sigur á Stólastúlkum

Eva Rún á vítalínunni gegn Njarðvíkingum á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA
Eva Rún á vítalínunni gegn Njarðvíkingum á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA

ÍR átti ekki í vandræðum með Stólastúlkur þegar liðin mættust í Seljaskóla í gær. Fyrir leikinn var lið Breiðhyltinga taplaust í efsta sæti 1. deildarinnar og þær bættu sjöunda sigrinum við en úrslitin réðust í öðrum leikhluta þegar þær mokuðu yfir gestina og unnu leikhlutann 21-2. Lokatölur leiksins voru hins vegar 66-38.

Tindastólsliðið gerði vel í fyrsta leikhluta, hélt í við sterkt lið ÍR og komst meira að segja yfir, 9-11, með körfu frá Marínu Lind þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar. Staðan var þó 14-13 að fyrsta leikhlutanum loknum en þá tók við erfiður annar leikhluti þar sem Stólastúlkur komust ekki á blað fyrr en eftir átta og hálfa mínútu en þá gerði Inga Sólveig einu körfu sína í leiknum og kom í veg fyrir að Stólastúlkur skoruðu enga körfu í leikhlutanum. Staðan því 35-15 í hálfleik.

Heimastúlkur voru áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik án þess þó að valta eitthvað yfir gestina. Þriðja leikhluta vann ÍR 17-11 og fjórði leikhluti endaði með þekktum tölum úr íþróttasögu Íslands, 14-2.

Báðir þjálfarar nýttu alla leikmenn á skýrslu sem er jákvætt og liðin tóku jafn mörg fráköst í leiknum en bæði lið leika án erlends leikmanns. Fjórar stúlkur í liði ÍR gerðu tíu stig eða meira í leiknum en enginn leikmanna Tindastóls komst yfir tíu stig. Stigahæst í liði Tindastóls var Marín Lind með níu stig en næstar komu Eva Rún og Eva Wium með átta stig hvor en Eva Wium tók að auki sjö fráköst en Eva Rún sex. Karen Lind hirti sjö fráköst. Lið Tindastóls tók 22 3ja stiga skot en setti aðeins tvö niður á meðan heimastúlkur tóku 19 3ja stiga skot og hittu úr sjö.

Þann 19. febrúar spila Stólastúlkur við lið Ármanns á útivelli en stúlkurnar hans Ármanns hafa unnið einn leik af sex. Síðan er heimaleikur gegn liði Fjölnis b þann 27. febrúar. Kannski verður þá leyfilegt að hafa einhverja áhorfendur í Síkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir