Ísak Óli Íslandsmeistari í grindahlaupi

Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Ísak Óli Traustason. Mynd: tindastoll.is/frjalsar
Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Ísak Óli Traustason. Mynd: tindastoll.is/frjalsar

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram á Laugardalsvellinum í Reykjavík helgina 13.-14. júlí þar sem besta frjálsíþróttafólk landsins, um 200 talsins, keppti um 37 Íslandsmeistaratitla. Átta Skagfirðingar kepptu fyrir hönd UMSS á mótinu. Meðal þeirra voru tveir af Íslandsmeisturum síðasta árs, þeir Jóhann Björn Sigurbjörnsson í 100 m og 200  m hlaupum og Ísak Óli Traustason í 110 m grindahlaupi.  

Ísak Óli Traustason varð Íslandsmeistari í 110 m grindahlaupi þar sem hann hljóp á 15,14 sek. Ísak vann einnig til silfurverðlauna bæði í stangarstökki þar sem hann stökk 4,20 m sem er persónulegt met og í langstökki með stökk upp á 6,81 m.

Jóhann Björn Sigurbjörnsson varð í 3. sæti í 200 m hlaupi en tímataka þar mistókst. Þá náði hann næstbesta tímanum í undanrásum 100 m hlaups, 10,95 sek, en brá því miður of fljótt við í úrslitahlaupinu og var dæmdur úr leik. Sveit UMSS í 4x100m boðhlaupi karla var einnig dæmd úr leik.

Stefanía Hermannsdóttir keppti í spjótkasti þar sem hún lenti í 4. sæti, kastaði 31,89 m sem er hennar besti árangur til þessa. Rúnar Ingi Stefánsson varð í 4. sæti í spjótkasti, kastaði 40,15 m, Ragna Vigdís Vésteinsdóttir varð í 6. sæti í kúluvarpi, kastaði 9,98 m og Andrea Maya Chirikadzi keppti í kúluvarpi þar sem hún bætti árangur sinn með kasti upp á 9,69 m.

Alls tóku 15 lið þátt í mótinu og var ÍR sigurvegari mótsins með 76 stig. Fyrstu sex sætin röðuðust þannig:

1. sæti - ÍR með 76 stig.
2. sæti - FH með 72 stig.
3. sæti – Breiðablik með  27 stig.
4. sæti - KFA með 10 stig.
5. sæti -  HSK/Selfoss með 10 stig.
6. sæti -  UMSS með 8 stig. 

Öll úrslit mótsins má sjá HÉR

Á morgun mun Frjálsíþróttaráð UMSS og Kraftlyftingafélag Akureyrar - frjálsar, senda sameiginlegt lið á Bikarkeppni FRÍ utanhúss í ár. Bikarkeppni er keppni milli liða og í ár er keppt í eftirfarandi greinum: 

Karlar: 100 m hlaup, 400 m hlaup, 1500 m hlaup, 110 m grindahlaup, 1000 m boðhlaup, hástökk, þrístökk, kringlukast og spjótkast.
Konur: 100 m hlaup, 400 m hlaup, 1500 m hlaup, 100 m grindahlaup, 1000 m boðhlaup, langstökk, stangarstökk, kúluvarp og sleggjukast. 

Átta lið keppa í ár; Breiðablik, FH-A, FH-B, Fjölelding (Fjölnir - Afturelding), HSK, ÍR-A, ÍR-B og UMSS/KFA. Það lið sem hlýtur flest stig hlýtur sæmdarheitið Bikarmeistari í frjálsíþróttum. 

Skráðir keppendur og varamenn frá UMSS eru þau; Andrea Maya Chirikadzi, Aníta Ýr Atladóttir, Daníel Þórarinsson, Guðmundur Smári Guðmundsson, Ísak Óli Traustason, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Ragna Vigdís Vésteinsdóttir, Rúnar Ingi Stefánsson, Stefanía Hermannsdóttir og Sveinbjörn Óli Svavarsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir