Ísak Óli varð Íslandsmeistari í sjöþraut í dag

Ísak Óli rauðklæddur í grindahlaupinu. MYND AF VEF FRÍ
Ísak Óli rauðklæddur í grindahlaupinu. MYND AF VEF FRÍ

Á síðu Frjálsíþróttasambands Íslands segir frá því að Ísak Óli Traustason, UMSS, hafi sigrað í sjöþrautarkeppninni á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum sem lauk í Laugardalshölinni í dag. Ísak Óli, sem kjörinn var Íþróttamaður Skagafjarðar í þriðja sinn nú um áramótin, átti frábæra þraut og hlaut 5355 stig sem færði honum gullið en var einnig persónuleg bæting.

„Hann sigraði sex af sjö greinum og var með stórkostlega bætingu í kúluvarpi. Hann var við sitt besta í öllum greinum nema í hástökki en hástökkið hefur litið vel út á síðustu æfingum og verður gaman þegar það smellur hjá honum,“ segir í frétt á FRÍ.is.

ÍR-ingurinn Benjamín Jóhann Johnsen varð annar í keppninni en hann hlaut 4174 stig og sigur Ísaks Óla því augljóslega öruggur.

Ísak Óli hljóp 60 metrana á 7,07 (858 stig), hann sveif 6,91m í langstökki (792 stig), kastaði kúlunni 14,14m (737 stig), fór 1,76m í hástökki (593 stig), hljóp 60m grind á 8,37 sek (891 stig), stökk 4,30m í stangarstökki (702 stig) og hljóp loks 1000m á 2:48,41 mín (782 stig).

Glæsilegt mót hjá Skagfirðingnum og óskar Feykir honum til hamingju með árangurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir