Jakar reyna afl sitt

Ari Gunnarsson varð Norðurlands Jaki árið 2018. Hér lyftir hann 400 kílóum í réttstöðulyftu. Myndir: FE
Ari Gunnarsson varð Norðurlands Jaki árið 2018. Hér lyftir hann 400 kílóum í réttstöðulyftu. Myndir: FE

Aflraunakeppnin Norðurlands Jakinn fór fram á Norðurlandi dagana 23.-25. ágúst. Keppnin er með sama sniði og Vestfjarðavíkingurinn og er keppt á nokkrum stöðum, víðs vegar um Norðurland, í einni grein á hverjum stað.

Keppnin hófst á Blönduósi á fimmtudag þar sem keppt var í drumbalyftu en þaðan var ferðinni heitið til Skagastrandar og háð keppni í að  kasta yfir vegg. Næsta dag var haldið til Sauðárkróks og keppt í réttstöðulyftu en seinna um daginn spreyttu kapparnir sig í víkingapressu og  myllugöngu. Keppni lauk svo á laugardag í Dimmuborgum en keppnisgreinarnar þann daginn nefndust framhald og réttstöðuhald.

Níu kraftajötnar börðust um að verða Norðurlands Jaki og lauk keppni þannig að Ari Gunnarsson bar sigur úr býtum með 54 stig. Í öðru sæti varð Sigfús Fossdal með 50,5 stig og Óskar P. Hafstein í því þriðja með 44,5 stig.

Feykir kíkti á kappana þar sem þeir reyndu sig í réttstöðulyftu við Safnahús Skagfirðinga og smellti af nokkrum myndum. Byrjunarþyngdin var aðeins 270 kíló og lauk keppni þannig að Ari Gunnarsson og Sigfús Fossdal urðu jafnir í fyrsta sæti með lyftu upp á 400 kíló.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir