Jóhann Björn gat ekki hlaupið vegna meiðsla á síðasta keppnisdegi Smáþjóðaleikanna

Jóhann Björn og Ísak Óli. Mynd: Tindastóll.is
Jóhann Björn og Ísak Óli. Mynd: Tindastóll.is

Frjálsíþróttakeppninni á Smáþjóðaleikunum 2019 lauk í Svartfjallalandi sl. föstudag með frábærum árangri Íslands. Þrenn gullverðlaun, fern silfurverðlaun og sex bronsverðlaun hjá íslensku keppendunum á lokadegi. Jóhann Björn Sigurbjörnsson hafði unnið sér inn sæti í úrslitum en gat ekki hlaupið vegna meiðsla.

Hinn Skagfirðingurinn í keppnishópnum, Ísak Óli Traustason, var í boðhlaupssveit Íslands í 4×400 metrum ásamt Hlyni Andréssyni, Kormáki Ara Hafliðasyni og Ívari Kristni Jasonarsyni. Urðu þeir í þriðja sæti á tímanum 3:18,45 mínútur. Ísak Óli gerði enn betur í 110 metra grindarhlaupi en þar krækti hann í silfurverðlaun, hljóp á 14,85 sekúndum sem er persónulegt met. 

Keppni á Smáþjóðaleikunum 2019 í Svartfjallalandi lauk svo í gær og hafnaði Ísland í 3. sæti á verðlaunatöflu Smáþjóðaleikanna 2019 með 54 verðlaun, þar af 19 gullverðlaun. Lúxemborg trónir á toppi töflunnar með 76 verðlaun, þarf af 26 gull. Kýpur var í 2. sæti með 64 verðlaun. Mónakó var í 4. sæti með 47 verðlaun. 

Lokahátíðin fór svo fram um kvöldið í leikaþorpinu en Anton Sveinn Mckee, sundmaður, var fánaberi fyrir hönd Íslands. Á heimasíðu ÍSÍ kemur frama að hátíðin hafi hafist á því að íþróttafólk í blaki og körfuknattleik fékk sín verðlaun afhend og var íslenska íþróttafólkið glæsilegt á sviðinu í verðlaunaafhendingunni. Forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og forseti Evrópusambands Ólympíunefnda voru viðstaddir lokaathöfnina ásamt háttsettum gestum frá Svartfjallalandi. Leikunum var svo slitið með kraftmikilli flugeldasýningu.

Sjá nánar á ÍSÍ.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir