Karla- og kvennalið Tindastóls sóttu Akureyri heim

Kristrún fór snemma út af vegna meiðsla. MYND: ÓAB
Kristrún fór snemma út af vegna meiðsla. MYND: ÓAB

Karla- og kvennalið Tindastóls voru bæði í eldlínunni í Kjarnafæðismótinu um liðna helgi. Stelpurnar mættu Þór/KA 2 og máttu lúta í gervigras Bogans eftir 2-1 tap en strákarnir mættu í kjölfarið liði Þórs 2 og eftir að hafa lent tveimur mörkum undir náðu Stólarnir að jafna metin og lokatölur þar 2-2.

Stelpurnar mættu ungu en spræku b-liði Þórs/KA og urðu fyrir áfalli snemma leiks þegar Kristrún, sem hefur varla misst úr leik árum saman, fékk högg á hnéð og varð að yfirgefa völlinn. Amalía Árnadóttir kom Akureyringum yfir á 38. mínútu og á 64. mínútu bætti Hulda Ósk Jónsdóttir við marki. Keppniskonan María Dögg Jóhannesdóttir lagaði stöðuna fyrir lið Tindastóls á 71. mínútu en lengra komust Stólastúlkur ekki að þessu sinni.

Atli Þór Sindrason kom liði Þórs 2 í forystu eftir 13 mínútur þegar Akureyringar tóku á móti Stólunum á sunnudaginn. Bjarni Már Eiríksson bætti við marki á 51. mínútur en Eysteinn Bessi Sigmarsson lagaði stöðuna fyrir Stóla á 74. mínútu. Það var síðan fyrirliði Kormáks Hvatar, Sigurður Bjarni Aadnegard, sem jafnaði leikinn á 86. mínútu og nældi sér í gult spjald mínútu síðar. Feykir spurði Sigga hvort ekki hefði verið gaman að skora fyrir Tindastól. „Alltaf gaman að skora, vonandi lærðu strákarnir eitthvað af þessu,“ svaraði kappinn léttur.

„Þessir leikir voru fínir hjá okkur, á þessum tíma er aðalmálið að fá leik og komast hægt og rólega í leikform, skoða leikstöður og læra hvað við getum bætt,“ svaraði Konni Sigga Donna þegar Feykir spurði hann út í leiki helgarinnar en Konni leysti Donna bróður sinn af í brúnni. „Ánægður með margt í þessum leikjum en hinsvegar er margt sem við þurfum að bæta og munum við vinna í þeim þáttum.“

Konni, sem hefur verið fyrirliði Tindastóls árum saman, er meiddur sem stendur, varð fyrir meiðslum á hné og enn er ekki ljóst hvenær hann kemst aftur á ferðina. Þá er verið að meta meiðsli Kristrúnar sem vonandi eru ekki alvarleg enda hefur hún verið frábær í vörn Stólastúlkna og gríðarlega mikilvæg við hlið Bryndísar fyrirliða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir