Keyrum þetta í gang!

Grettismenn, stuðningsmannasveit Tindastóls, munu vafalaust ekki láta sitt eftir liggja í kvöld. Áfram Tindastóll!  MYND: HJALTI ÁRNA
Grettismenn, stuðningsmannasveit Tindastóls, munu vafalaust ekki láta sitt eftir liggja í kvöld. Áfram Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Þór Þorlákshöfn mætast í Síkinu í kvöld kl. 18:30 í fimmtu og síðustu viðureign liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar. Eftir að hafa fengið fínt start og sigrað tvær fyrstu viðureignir liðanna þá hafa Stólarnir hikstað duglega og Þórsarar gengið á lagið og kláruðu leiki þrjú og fjögur nokkuð sannfærandi. Það er því allt undir í kvöld, sæti í fjögurra liða úrslitum í húfi og lið Tindastóls þarf nú að sýna úr hverju það er gert.

Liðin mættust í fjórða leiknum í Þorlákshöfn síðastliðið laugardagskvöld og var um hörkuleik að ræða en heimamenn voru þó yfirleitt með yfirhöndina. Þeir voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 21-17, en það var jafnt í hálfleik, 42-42. Líkt og í þriðja leik liðanna í Síkinu sl. fimmtudag þá komu Þórsarar vel stemmdir til leiks í þriðja leikhluta og lögðu þá grunninn að sigri sínum í leiknum. Stólarnir minnkuðu muninn í þrjú stig þegar tvær mínútur voru til leiksloka, 84-81, en það voru heimamenn sem reyndust sterkari á lokakaflanum með Kinu Rochford, haltan en heilan á hjarta, í fantaformi.

Lið Tindastóls átti skárri leik að þessu sinni en í þriðja leiknum en nú vantaði alla grimmd í frákastabaráttunni. Þórsarar hirtu 47 fráköst en Stólarnir 31 og þannig sigra Tindastólsmenn ekki baráttuglatt lið Þósara. Það þarf meira til í kvöld.

PJ Alawoya var stigahæstur í liði Tindastóls með 23 stig en hann skilaði aðeins sex fráköstum, engu að síður flest í liði Tindastóls en varla boðlegt hjá tveggja metra kappa. Brynjar Þór var með 16 stig en hittnin brást honum á ögurstundu að þessu sinni. Þá var Pétur með 12 stig og Viðar 10 en aðrir minna.

Fjölmennum í Síkið og styðjum Stólana okkar til sigurs. Munið breyttan leiktíma!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir