Kórdrengirnir í Kára teknir til bæna á Blönduósi

Boltinn smellur í þverslá Káramarksins eftir aukaspyrnu heimamenn í síðari hálfleik. SKJÁSKOT
Boltinn smellur í þverslá Káramarksins eftir aukaspyrnu heimamenn í síðari hálfleik. SKJÁSKOT

Það var brjálað stuð á Blönduósi í dag þegar Kormákur/Hvöt tók á móti kórdrengjunum í Kára af Akranesi. Liðin mættust fyrr í sumar í miklum hasarleik og ekki vantaði hasarinn í dag. Gestirnir voru 0-2 yfir í hálfleik en heimamenn komu í vígamóð til leiks í þeim síðari og skoruðu þá fjögur mörk og unnu leikinn því 4-2. Heldur betur stór sigur og Húnvetningar sitja sem fastast í öðru sæti 3. deildar en öll fjögur toppliðin unnu sína leiki í dag og spennan því áfram mikil.

Fyrsta markið kom eftir sem mínútna leik en þá voru þrír leikmenn þegar komnir með gult spjald. Kolbeinn Tumi skoraði þá eftir að hafa fylgt eftir eigin vítaspyrnu sem vítabaninn Uros varði. Kolbeinn bætti við öðru marki á þriðju mínútu uppbótartíma og staðan svört hjá heimamönnum. Það voru þó ekki liðnar nema þrjár mínútur af síðari hálfleik þegar endurkoman hófst og bleiki valtarinn hrökk í gírinn. Alberto Montilla var þar á ferðinni og tíu mínútum síðar vænkaðist hagur Húnvetninga enn frekar þegar Hafþór Pétursson í liði gestanna fékk að líta reisupassann. Montilla jafnaði metin mínútu síðar og spennan orðin óbærileg á Blönduósvelli. Benni kom svo heimamönnum yfir eftir góða sókn og á fyrstu mínútu uppbótartíma gulltryggði Ismael Moussa svo stigin þrjú með því að gera fjórða markið. Annað markvert gerðist ekki í leiknum nema það teljist til frétta að Ísak Sigurjónsson steig inn á völlinn á 96. mínútu.

Leikurinn var fjörugur og dómarinn hafði í nógu að snúast, veifaði spjöldunum sínum alls ellefu sinnum í leiknum og á því sviði höfðu gestirnir betur, fengu að líta spjöldin alls sjö sinnum og geri aðrir betur!

Ingvi Rafn bjartsýnn á framhaldið

Feykir spurði Ingva Rafn þjálfara hvernig hefði verið að spila þenna leik. „Það var bara gaman. Mikill baráttuleikur frá fyrstu mínútu og sem betur fer endaði þetta okkar megin. Ég hef gaman af báðum hlutverkum. Mjög ólíkt og þá aðallega er mun meira stressandi að vera á hliðarlínunni og horfa á. Það sem skóp sigurinn er aðallega bara trúin á verkefnið. Þrátt fyrir að vera 2-0 undir í hálfleik voru menn staðráðnir í að koma út í seinni hálfleikinn og gera betur. Það tókst og við skoruðum fjögur góð mörk í seinni hálfleik og sýndum góðan karakter.

Ertu bjartsýnn á framhaldið? „Ég er mjög bjartsýnn a framhaldið. Við eigum fjóra erfiða leiki eftir af mótinu þar sem við ætlum að reyna ná eins í mörg stig og hægt er. Annað sætið er í okkar höndum og viljum við halda því þannig,“ sagði Ingvi Rafn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir